Forritun á unglingastigi í Sæmundarskóla

Unglingar kenna yngri nemendum forritun: Í unglingadeild Sæmundarskóla er boðið upp á sex vikna námskeið fimm sinnum yfir skólaárið. Eitt af námskeiðunum sem hefur verið í boði er forritun.

Á námskeiðinu læra nemendur grunnaðgerðir forritunar í gegnum appið Lightbot – Hour of Code sem er frítt í Play Store. Appið er einfalt og viðmótið hentar öllum aldri. Kennarar um allan heim nota þetta app sem fyrstu kynni nemenda að forritun. Nemendur öðlast grunnþekkingu á hugtökum forritunar t.a.m. aðgerðir (e.procedures), lykkjur/slaufur (e. loops) og raðaðgerðir (e. sequences).

Code-skjamynd

Skjámynd af Code.org þar sem nemendum gefst tlkifæri til að kynnast forritun.

Markmiðið með leiknum er að setja inn skipanir og færa lítið vélmenni á bláan reit, þegar vélmennið er komið á bláa reitinn þá þarf að nota skipunina ,,pera” til að kveikja ljós á bláa reitnum. Þegar því er lokið þá hefur nemandi lokið borðinu og kemst á það næsta. Borðin þyngjast eftir því sem lengra er komist og eru þrjú stig í fríu útgáfu leiksins.

Þegar nemendur í námskeiðinu hafa náð góðum tökum á Lightbot þá bjóðum við nemendum af yngri stigum upp á forritunarkennslu þ.e. unglingarnir kenna yngri nemendum. Þetta hefur gefist gríðarlega vel og allir læra bæði unglingarnir og yngri nemendur. Yfirleitt eru tólf nemendur á forritunarnámskeiði og samhliða kennslu í Lightbot, læra þeir forritun í gegnum vefsíðuna Code.org.

[do action=“video“ id=“FC5FbmsH4fw“ position=“center,“ device=“s4-white-landscape“ size=“medium“ align=“center“/]


Code.org er einstaklega velheppnuð kennslusíða í forritun. Hægt er að velja íslensku sem tungumál, sem hentar nemendum á yngsta stigi en einnig getur verið ágætt fyrir unglinga að samþætta forritun og velja ensku sem tungumál síðunnar. Kennari býr til aðgang og nemendur fá kóða og skrá sig á síðuna.

Þannig getur kennari fylgst gaumgæfilega með virkni og framförum nemenda þar sem Code.org er sett upp á sama hátt og Lightbot með borðum og stigum. Nemendur fá bikar (e. trophy) þegar þeir hafa lokið vissum þáttum forritunar. Í lokinn fá þeir viðurkenningarskjal sem kennari getur nálgast á vefsíðunni.

Sólveig R. Sigurðardóttir
Kennari í Sæmundarskóla

Lokað er fyrir athugasemdir.