Warning: Declaration of UL_Class_Walker::start_lvl(&$output, $depth) should be compatible with Walker_Nav_Menu::start_lvl(&$output, $depth = 0, $args = NULL) in /var/www/vhosts/tvr.is/snjallskoli.is/wp-content/themes/saman/inc/wp3menu.php on line 14

Warning: Declaration of Walker_Category_Filter::start_el(&$output, $category, $depth, $args) should be compatible with Walker_Category::start_el(&$output, $data_object, $depth = 0, $args = Array, $current_object_id = 0) in /var/www/vhosts/tvr.is/snjallskoli.is/wp-content/themes/saman/inc/posttypecategories.php on line 3
Snjalltæki er verkfæri | SNJALLSKÓLI

Snjalltæki er verkfæri

Í samfélaginu á sér stað bylting – háttalagsbylting! Sú bylting fer ekki framhjá skólafólki. Byltingarvaldurinn er snjalltækið sem æði margir líta eingöngu á sem leiktæki – dýr leikföng – en ekki sem hagræðingartæki(færi) eða verkfæri. Fyrir snjalltækjavæðingu skóla er nauðsynlegt að hugleiða hvernig tækin eiga að koma að gagni. Skoðum málið nánar. 

vidhorf

Grundvallarafstaða til snjalltækja

Ef ætlunin er að innleiða snjalltæki í skólastarf er mikilsvert að það sé gert á réttum forsendum þannig að afstaða kennara og nemenda sé til þess fallin að innleiðingin verði til góðs og þjóni markmiðum námsins. Þess vegna má segja að hálfur sigur felist  í því einu að spyrja hvers vegna snjalltæki eigi erindi í skólastofuna. Svörin við þeirri spurningu geta verið á ýmsa vegu: til að kenna nemendum á nýja tækni, til að efla með þeim sköpunarhæfni, til að kenna nemendum að leita sér upplýsinga á netinu, til að kenna nemendum nýja samvinnu- og samstarfstækni, efla frumkvæði og miðlun o.s.frv. Ef vel tekst til  byggja þær fjölbreyttu og góðu ástæður sem kunna að liggja til grundvallar innleiðingu snjalltækja í skólastarfi á sameiginlegu viðhorfi: að snjalltækið sé verkfæri og þjóni markmiðum námsins.

Að gera hlut að verkfæri

Þegar að hlutur er verkfæri, á hann að þjóna tilteknu markmiði; vera miðillinn til að ná fram markmiðinu. Það sem öðru fremur gerir hlutinn að verkfæri, er einmitt viðhorf okkar til hans. Þegar maður nýtir sér hluti sem verkfæri er ríkjandi viðhorf að hluturinn skuli þjóna ákveðnum tilgangi. Það útilokar auðvitað ekki að hægt er að horfa á tæki með ólíkum hætti, s.s. leikfang, út frá listrænu sjónarmiði o.s.frv. Því er ekki sjálfgefið að litið sé á snjalltæki sem hagnýt verkfæri í skólastarfi – sem tæki til að þjóna ákveðnum tilgangi við öflun upplýsinga, miðlunar og fleira. Afstaða margra til snjalltækja hefur einkennst af því að litið er á tækin nær eingöngu sem afþreyingartæki eða leiktæki. Það gefur að skilja að reginmunur er á því viðhorfi og verkfæraviðhorfinu; afþreyingarviðhorf er til þess fallið að litið er burt frá hinum hagnýtu möguleikum sem snjalltæknin bjóða upp á og gera kröfur til notandans um að vera annað og meira en áhorfandi.

Verkfærakassi og verkfæri

Góð leið til þess að stuðla að hagnýtingu snjalltækja í skólastarfi er að líta á tækið sem verkfærakassa og kynna það sem slíkt gagnvart nemendum og kennurum, áður en byrjað er að nota það.  Þannig má koma í veg fyrir vonbrigði sem nemendur verða fyrir ef þau telja sig vera með leiktæki í höndunum. Tækið er þá einskonar hirsla undir hin ýmsu verkfæri og tól sem m.a. birtast okkur í fjölbreytilegu úrvali smáforrita. Það úrval fer stöðugt vaxandi og veltur á manni sjálfum hvaða verkfæri – keypt eða án endurgjalds – er halað niður af netinu, geymd í kassanum eða fleygt úr honum. Samhliða meiri og fjölþættari notkun snjalltækisins verður verkfærakassinn stærri og betur sniðinn að þörfum hvers og eins og verkfærið þeim mun öflugra.

 AdamVerkfaerin

Mikið úrval verkfæra þýðir ekki að sérhvert smáforrit sem í boði er henti öllum. Hér gildir sem fyrr að finna verkfæri sem hentar. Það á bæði við um kennarana, þegar þeir leita sér verkfæra til að útfæra sín faglegu markmið, sem og nemendurna, þegar þeir nýta sér snjallverkfæri til að leysa sín verkefni. Nemendur hafa ólíkar þarfir og koma sér upp mismunandi aðferðum við vinnu sína. Það getur verið erfitt að vita það fyrirfram hvaða verkfæri hentar best og tilraunastarf er því óhjákvæmilegt. Það verkfæri sem gagnast einum stærðfræðikennara gagnast e.t.v. ekki öðrum, svo hver og einn verður að prófa og sjá hvað hentar.

Til stuðnings kennslumarkmiðum

Kennarans er að temja sér það viðhorf að hér sé um að ræða tækifæri fyrir hann og nemendurna; að hér sé á boðstólum nýtt fjölnota menntunarverkfæri sem býður uppá mikla þróunarmöguleika. Með því að hafa verfæraviðhorfið hugfast þegar hann hefst handa í að kynna sér möguleika snjalltækninnar, lendir hann síður í því að missa sjónar á kennslumarkmiðum sínum. Kennslumarkmiðin eru vissulega þau markmið sem verkfærin eiga að þjóna, en ekki öfugt.

Hjálmur Dór Hjálmsson, verkefnastjóri og kennari í Heiðaskóla í Hvalfirði, hélt erindi á Haustþingi Kennarafélags Vesturlands þann 10. október s.l. Þar útskýrði hann mikilvægi kennslumarkmiða gagnvart snjalltækja-verkfærinu á skemmtilegan og lýsandi hátt: Maður sem fer í Bauhaus til að kaupa sér verkfæri hefur tiltekið markmið með verkfærakaupunum enda fer enginn í byggingarvöruverslun og kaupir verkfæri af handahófi.

Í framhaldinu hvatti Hjálmur starfssystkini sín til að hafa hugföst kennslumarkmið sín, fyrst og fremst og fara síðan út af örkinni í leit að vænlegum verkfærum (smáforritum) til að útfæra þau markmið.

Umrædd hugarfarsbreyting (að sjá snjalltæki sem verkfæri) snýr í sjálfu sér ekki að setningu kennslumarkmiða (þótt nýjir tímar geti vissulega kallað á nýtt námsefni og ný kennslumarkmið), heldur því hvaða verkfæri og aðferðir eru notaðar til að uppfylla markmiðin.

Ný verkfæri kalla á leiðsögn og kennslu

Öllum verkfærum fylgja ákveðnar umgengnisreglur og gildir það líka um hin nýju kennsluverkfæri. Það þarf að setja reglur1 um notkunina og kenna þær, eins og áður hefur verið fjallað um. Kennsla á verkfærin sjálf er verkefni sérhvers kennara fyrir sig þótt sum verkfæri sé hægt að nota í mörgum og ólíkum fögum. Geta kennarar því sameinast um að læra nýja hluti saman og miðlað reynslunni bæði sín á milli, sem og til nemenda. Kennarinn þarf þó ekki endilega að gerast sérfræðingur í tilteknum smáforritunum á undan nemendunum. Verulega gott kennslutækifæri felst í því að virkja nemendurna með þeim hætti að fá þá til að kanna og rannsaka verkfærin með ákveðna nýtingu í huga. Þar með er líka verið að kenna nemendum að umgangast – og hugsa um – snjalltækin og snjalltæknina, einmitt sem verkfæri.

Almenn viðhorfsbreyting

Breyting á almennu viðhorfi og venjum er mikið átak. Nú, þegar snjalltæknin er að koma inn í tilveru okkar og samfélag, gefst einstakt tækifæri til að móta viðhorfið og venjurnar í kringum snjalltæknina. Ábyrgðin á því er ekki í höndum fárra útvalinna; fáeinar manneskjur eru ekki færar um að lyfta því hugarfarslega grettistaki fyrir þjóðina, sakir hversu almenn snjalltæknin þegar er orðin. Umfangi málsins samkvæmt, snertir það okkur öll að snjalltæki séu ekki álitin „dýr leikföng“. 

Skólafólk þarf að gera sér ljósa grein fyrir því að breytingin – byltingin – sem á sér stað um þessar mundir er ekki bundin við tölvuver, upplýsingatæknimenntun eða sérstaka tölvukennslu í skólum. Snjalltæknin varðar ekki bara „tölvudeildina“ og er ekki bundin við eitt ákveðið fag. Snjalltæknin boðar almenna háttalagsbyltingu, sem teygir anga sína nú inn í skóla landsins og boðar byltingu á því hvernig lært er og kennt er. Byltingin getur komið til okkar í formi verkfærakassa með ótal nýjum og spennandi kennsluverkfærum, sem nýta má til góðs í öllu faglegu skólastarfi. Forsendan er að litið sé á snjalltækið sem verkfæri og það notað sem slíkt.

Verkfaerakassi

  1. Dæmi um reglur má finna í skólareglum Grunnskóla Hornafjarðar, í skólareglum Sæmundarskóla í Grafarholti og í skólareglum Grunnskóla Fjallbyggðar

3 responses to “Snjalltæki er verkfæri”

  1. […] En það er munur á því að nota tækin eða verða notaður af þeim og þess vegna skiptir viðhorf manns til hinnar nýju tækni og tækjabúnaðar máli. Stuðla þarf að skynsamlegri notkun og […]

  2. […] gegnir lykilhlutverki í því að leiða börnunum fyrir sjónir að spjaldtölva er verkfæri, því það er ekki sjálfgefið að börn hætti í tölvuleik til að leita að heimildum á […]

  3. […] þarf aðeins að undirbúa innkomu leiksins í kennsluna áður en leikurinn er kynntur sem námsverkfæri. Kennarinn þarf bara að skoða svona hluti og setja um þá almennar reglur fyrir nemendurna. Til […]