Íslensk Reiknileikni

 

Íslensk Reiknileikni er app þar sem þjálfa má samlagningu, frádrátt og margföldun. Forritið er með íslensku viðmóti og boðið er uppá mismunandi erfiðleikastig. Það ætti því að höfða til breiðari hóps hjá yngri kynslóðinni.

 

Lýsing

Íslensk Reiknileikni er búið til af Guðröði Atla Jónssyni 2012 og er stærðfræði smáforrit með íslensku viðmóti. Það er einfalt í notkun og býður uppá að velja erfiðleikastig í samlagningu og frádrætti. Kynning á því hvernig nota má forritið er á youtube og nálgast má appið á Googleplay

Þegar Reiknileikni forritið er opnað býðst þrennt : Samlagning, frádráttur og margföldun. Séu samdráttur eða frádráttur valinn birtist valmynd þar sem m.a. má stilla erfiðleikastigið, hafa hljóðið á eða ekki, nota takkann til að sleppa dæmum og einnig má sjá hversu oft svarað hefur verið rétt og rangt. Erfiðleikastig eru valin með því að smella á hnappana léttara (léttast er tölugildið 0) og erfiðar (upp í tölugildið 49). Sé dæmunum svarað rétt hrósar stúlkurödd nemandanum en hvetur hann ef miður fer.

Í margfölduninni kemur upp gluggi með valkostunum þjálfa sig, minnispjöld og töflur. Margföldunin hefur aðeins öðruvísi viðmót en hinir tveir grunnvalsmöguleikarnir, þ.e. í minnisspjöldunum og í töflunum. Í minnisspjöldunum er verið að þjálfa sig í margföldunartöflunni þar sem svarið er falið með spurningarmerki (t.d. 1×2=?). Viti nemandinn svarið flettir hann áfram með því að draga fingurinn frá hægri til vinstri. En viti hann ekki svarið pikkar hann tvisvar á skjáinn og svarið birtist. Svo flettir hann yfir á næsta dæmi. Til að hækka fyrri töluna má draga fingur niður skjáinn og lækka hana með því að draga fingurinn upp. Í töflunum finnur maður margföldunartöflurnar frá 1 upp í 10. Þegar nemandinn velur „Þjálfa sig“ kostinn kemur upp sama valmynd og í samlagningunni og frádrættinum. Sé svar einhvers dæmis á huldu fyrir nemandanum getur hann nálgast svarið sjálfur með því að haldi svara-takkanum inni í 3 sekúndur og þá birtist viðeigandi margföldunartafla.

 [do action=“mynd“ url=“http://www.snjallskoli.is/wp-content/uploads/2015/07/output_JJ9r10.gif“ device=“s5-white-landscape“ align=“center“ size=“medium“/]


 

Í Reiknileikni eru nokkur grunnatriði stærðfræðinnar sett fram á skemmtilegan máta.  Mikill kostur er að hafa appið á íslensku og eru viðmót og uppsetning Reiknileikni þægileg og skýr. Forritið býður uppá að velja má á milli nokkurra valkosta og stillingaratriða, sem klárlega eykur notagildið til muna. T.d. er mikill kostur að geta hækkað eða lækkað erfiðleikaþröskuldinn. Aldurinn eða hæfnissviðið sem að appið hentar fyrir er því breiðara en ella, allt frá elstu leikskólabörnunum upp í yngri stig grunnskólans. Þess má geta að Guðröður Atli hefur látið þess getið að hann hafi búið appið til fyrir dóttur sína í þeim tilgangi að þjálfa hana heima fyrir í ofangreindum grunnþáttum stærðfræðinnar. Því má segja að Reiknileikni sé ekki bara góð viðbót í skólastarfið, heldur feli í sér einn stærsta kost snjalltækninnar: að geta lært hvar sem er.

 

Kostir

Íslenskt viðmót
Einfalt í notkun
Margir valmöguleikar

Gallar

Mætti athuga virkni léttar/erfiðar hnappana
Virkar erfiðlega að fara á milli margföldunartaflna í Minnisspjöldum