Picsay

 

PicSay er myndvinnslusmáforrit þar sem bæta má ýmsu hressilegu við inn á ljósmyndir. Inn á myndirnar má m.a. setja texta, talblöðrur, hatta, sólgleraugu, blöðrur, fána og margt fleira. Og myndirnar eignast nýtt líf.

 

Lýsing

PicSay – Photo Editor appið er framleitt af Shinycore og er á Googleplay í frírri útgáfu. Kaupa má viðbætur og nefnast þær PicSay Pro. PicSay er app sem gerir notendum kleift að vera skapandi á myndrænan hátt með því að nota tilbúnar myndir, tákn, límmiða, talblöðrur og fleira og bæta þeim ofan á eigin ljósmyndir.

Þegar forritið er opnað þarf að ná sér í mynd til að vinna með. Ná má í myndir úr galleríi tækisins eða frá möppum forrita. Þegar mynd hefur verið valin býður appið upp á þrjá valmöguleika: stilla mynd (klippa af henni, laga rauð augu, snúa myndinni o.fl.), áhrif (lita yfir hana, setja aðra mynd ofan á, spegla myndina o.fl.) og límmiða (talblöðrur, límmiða, augu, texta o.s.frv.). Mögulegt er að fikta í, færa til og stilla það sem bætt er við á ýmsan máta. Myndirnar má vista beint í gallerí tækisins eða deila áfram í gegnum fjölda annarra appa, jafnvel senda áfram beint til einhvers í tölvupósti, á samfélagsmiðli og sms.

picsay3


 

Rýni

Uppsetning PicSay er einföld og segir sig að miklu leyti sjálf. Viðmótið, sem er frekar teiknimyndalegt, er á ensku og hentar því e.t.v. betur fyrir hina eldri nemendur en þá yngri. Hinsvegar má efast um að enska sé nokkur einasta hindrun fyrir áhugasama og yngri kynslóð samtímans, sem gúglar sig áfram. Hvernig nýta má appið í kennslu fer hreinlega eftir hugmyndaflugi kennara. Nemendur hafa tök á að skapa sín eigin myndverk út frá ljósmynd og geta svo notað myndirnar áfram í ýmsum tilgangi, t.d. PowerPoint kynningar, Google Slideshows, vista þær inn í önnur smáforrit eins og Magisto eða Explain Everything, bæta við inn í frásagnir, ljóðagerð, ritgerðir o.s.frv.. PicSay hefur m.a. verið notað við gerð styttri teiknimyndasagna og í íslenskutímum, þar sem sett var saman myndasýning í tengslum við lestur á Gísla sögu Súrrssonar. Svo hér er það kennarans að opna dyrnar.

picsay2


 

 

Fría PicSay útgáfan er ágæt og nýtist vel þegar bæta á bara við táknum og límmiðum við ljósmyndir. Þeir sem vilja hinsvegar meira frá forritinu geta keypt sér Pro útgáfuna og fá þá aðgang að ýmsum viðbótum og valkostum. Þá bjóðast t.d. ýmsar stillingar sem varða myndina sem unnið er með, bæta má við myndum, fleiri táknum og límmiðaúrvalið eykst og margt fleira. Sjá má þónokkur kynningar- og/eða kennslumyndskeið PicSay Pro á Youtube.

Kostir

Einfalt viðmót
Styður íslenska stafi
Miklir möguleikar á notkun í skólastarfi
Býr til möppu í myndagallerí
Auđvelt ađ deila
Engar auglýsingar

Gallar

Til að fá fleiri valkosti þarf að kaupa PicSay Pro (ef galla má kalla)