Snjallfinnur

 

Snjallfinnur er íslenskt málfræðiapp með yfir 500 málfræðiæfingum. Það var gefið út í kjölfar útgáfu málfræðibókarinnar Málfinnur og er appið byggt á efni bókarinnar. Forritið er fyrsta forrit sem Málborg framleiðir og hlaut framleiðslan styrk frá Hagþenki 2014. Höfundur þess er Svanhildur Kr. Sverrisdóttir, um forritun og hönnun sá Sverrir Þorgeirsson og Ninna M.Þórarinsdóttir sá um […]

 

Lýsing

Snjallfinnur er íslenskt málfræðiapp með yfir 500 málfræðiæfingum. Það var gefið út í kjölfar útgáfu málfræðibókarinnar Málfinnur og er appið byggt á efni bókarinnar. Forritið er fyrsta forrit sem Málborg framleiðir og hlaut framleiðslan styrk frá Hagþenki 2014. Höfundur þess er Svanhildur Kr. Sverrisdóttir, um forritun og hönnun sá Sverrir Þorgeirsson og Ninna M.Þórarinsdóttir sá um myndskreytingar. Snjallfinnur var hannaður fyrir Android snjalltæki og er ókeypis á Google Play. Ios útgáfa er væntanleg að sögn framleiðanda. Það er sérstök ánægja að fjalla um SNJALLfinn hér í SNJALLskólanum.

 Screenshot_2016-04-25-11-57-13

Það fyrsta sem mætir manni þegar Snjallfinnur er opnaður er aðalvalmyndin. Þar má velja á milli fjögurra meginflokka og nefnast þeir: Kannaðu stöðuna, Orðflokkar, Úr ýmsum áttum og Orðaforði. Undir sérhverjum þessara meginflokka er að finna frekari valmöguleika. Í öllum meginflokkunum, að Orðaforðanum undanskildum, stendur valið á milli erfiðleikastiganna Auðvelt, Miðlungs og Erfitt. Þegar erfiðleikastigið hefur verið valið má hefja æfingarnar. Undir Orðaforðavalflokknum birtast hinsvegar valflokkarnir Hestar, Árstíðir, veður og veðurfar, Sjómennska, Hversdagurinn og Gamalt og gott. Notandi velur einn af þessum flokkum og getur þá byrjað að styrkja sinn orðaforða í spurningaleik. Hætta má leik hvenær sem er og birtist þá aðalvalmyndin aftur.

 

Æfingarnar eru allar með svipuðu sniði, byggðar upp álíka og Pub-Quiz spurningaleikur. Í æfingunum er ein spurning lögð fyrir efst á skjánum og birtast 4-5 svarmöguleikar undir henni. Aðeins einn þeirra er hið rétta svar og birtist það sem grænt; rangt svar er merkt rauðu. Ekki dugar vera annars hugar á meðan leikið er því velja þarf svar innan 30 sekúndna. Hvort sem að svarið reynist rétt eða rangt fylgir stutt útskýring neðst á skjánum þegar búið er að svara. Og innan skamms kemur næsta spurning. Leik lýkur svo þegar svarað hefur verið 10 spurningum og í leikslok má sjá hve mörgum réttum svörum leikmaður náði. Ef árangurinn var ekki ásættanlegur má alltaf reyna sig aftur. Ef áskorun á auðvelda stiginu er orðinn leikur einn, má hækka erfiðleikaþröskuldinn og taka nýja áskorun. 

[do action=“mynd“ url=“http://www.snjallskoli.is/wp-content/uploads/2016/04/output_dWUXnp.gif“ device=“s5-black-landscape“ align=“center“ size=“large“/]

Rýni

Það má með sanni segja að Snjallfinnur sé ekki áferðarfallegasta smáforrit sem búið hefur verið til. Það mætti jafnvel ganga svo langt að kalla það stærsta ókostinn við forritið; virkar frekar þurrt og stíft. En á hinn bóginn er hönnunin skýr og einföld, sem gerir það að verkum að notandi er eldfljótur að átta sig. Þar fyrir utan þegar notandinn er kominn á fullt í æfingarnar gefst ekki mikill tími til að velta sér upp úr útlitinu og viðmótinu, því klukkan tifar og finna þarf hið rétta svar. Það er jú keppni að ná sem flestum réttum svörum. Það var snjallt að hanna æfingarnar sem spurningaleiki og keppni, því bæði má keppa við sjálfan sig og aðra. Tíu spurningar virka sem hæfilegt magn spurninga og lengd á einum leik. Einn leikur tekur nefnilega ekki nema 5 mínútur, sem er kostur, því þá má brydda uppá og breyta til með keppnum í Snjallfinni, án þess að taka í það heilu eða hálfu kennslustundirnar. Og hrós fær Málborg fyrir að gera æfingarnar heldur ekki of auðveldar. Nám má vera áskorun og má gera ráð fyrir að leikurinn lifi aðeins lengur fyrir vikið. Hér mætti kannski líka bæta við að vonandi sér Málborg sér fært að bæta í sarpinn, uppfæra Snjallfinn með fleirum æfingum og þrautum, svo að notandi klári ekki bara leikina. Sumsé:  mínus fyrir útlitið, en hrós fyrir framlagið, leikina og virknina.

Stóri plúsinn við Snjallfinn er þó sú staðreynd að hér er á ferðinni alíslenskt málfræðiforrit, hannað sem leikur fyrir grunnskólanemendur (það getur vissulega verið leikur að læra!). Það er nefnilega virðingarvert framtak að vilja mæta nemendum þar sem áhugi þeirra er – þ.e. í og við snjalltækið – og vilja nýta þannig snjalltæknina á skynsamlegan máta til náms og góðra verka. Framtak Málborgar gerir nú kennurum kleift að nýta sér Snjallfinn og meira að segja þeim að kostnaðarlausu. Það má því segja að Snjallfinn vera mjög fína viðbót í þá flóru sem er sprettur upp úr fyrstu jarðlögum snjalltækninnar um þessar mundir.

Forritið hentar að líkindum vel fyrir nemendur og áhugasama á efri hluta miðstigs og á efsta stigi grunnskóla. Já, sem og þeim sem hafa gagn og gaman af því að leika sér í skemmtilegum spurningaleikjum.

 

Kostir

Skemmtilegar og miserfiðar æfingar
EInfalt skipulag og því auðlært
Stillingar og valkostir
Útskýringar með svörunum
Ókeypis
Íslenskt málfræðiapp

Gallar

Viðmót forritsins óheillandi og fornaldarlegt
Grafík vantar áþreifanlega