WolframAlpha

 

Wolfram|Alpha er stórmerkilegt app sem flestir geta haft gagn og gaman af. Stærðfræðinördar sem og aðrir nördar munu að öllum líkidum elska þetta app enda veitir appið og „vélin“ sem liggur að baki frábæra innsýn inn í heim vísinda. En Wolfram|Alpha á í raun erindi við alla sem vilja fræðast og ferðast um heim mannlegrar þekkingar og á því erindi við skólafólk af öllum stærðum og gerðum.

 

Lýsing

Wolfram|Alpha appið er ekkert venjulegt snjallforrit. Wolfram|Alpha er eins og að ganga með ofurtölvu úr vísindaskáldsögu í vasanum. Raunar er það einmitt þannig Wolfram|Alpha er lýst á Google Play:

Remember the Star Trek computer? It’s finally happening–with Wolfram|Alpha. Building on 25 years of development led by Stephen Wolfram, Wolfram|Alpha has rapidly become the world’s definitive source for instant expert knowledge and computation.

 

Snjallforritið Wolfram|Alpha er nokkurs konar gluggi inn í þjónustu sem svipar til leitarvéla á borð við Google og veitir notendum svör við hinum ýmsu spurningum. Wolfram|Alpha er samt ekki leitarvél. Sérstaða þjónustunnar felst í því að svörin eru fengin með því að framkvæma ýmisskonar útreikninga með aðstoð gagnagrunna, algríma og aðferða sem Wolfram Research hefur þróað unanfarin 25 ár. Langtímamarkmið Wolfram með þjónustunni er að gera alla kerfisbundna þekkingu tæka til útreikninga og aðgengilega fyrir hvern sem er.

Svörin, gögnin og upplýsingarnar sem Wolfram|Alpha er í stakk búið til að veita notendum eru ekki statísk heldur – enda eru svörin reiknuð út frá breytilegum forsendum – og geta því ráðist af hver spyrjandinn er, hvar hann er eða hvernig veðurspáin lítur út. Ef spurt er um aldur reiknar Wolfram|Alpha út nákvæman aldur viðkomandi og ef spurt er um veður miðast svarið við stað og stund. Of langt mál er að fara yfir öll þau fjölmörgu svið sem þekkingarbrunnur Wolfram|Alpha nær yfir en upprunaleg kynning frumkvöðulsins Stephen Wolfram gefur ágæta hugmynd um hvað hér er á ferðinni.

[do action=“video“ id=“FHIp6cHYkDg“ position=“center,“ device=“s4-white-landscape“ size=“medium“ align=“center“/]

 


Þótt Wolfram|Alpha „vélin“ sé magnað fyrirbæri er appið sjálft frekar látlaust á yfirborðinu – jafnvel einfalt – þótt sumum gæti þótt appið svolítið flókið við fyrstu sýn enda lítið annað en stórt lyklaborð nokkrum torkennilegum táknum sem mætir notendum í fyrstu. Ef spurt er um stærðfræði þarf notandinn vitaskuld að kunna að skrifa jöfnuna rétt inn en þar koma hin torkennilegu tákn sér vel (sem nemendur kynnast smám saman í námi sínu).

[do action=“mynd“ url=“http://www.snjallskoli.is/wp-content/uploads/2014/03/Wolfram-Keyboards300.gif“ device=“s5-white-portrait“ align=“right“ size=“small“/]

Vilji notandinn vita eitthvað um jöfnuna y=x2 er nóg að skrifa x^2 og flest það sem hægt er að segja um þá ágætu jöfnu birtist á skjánum. Vilji notandinn sjá hvernig heildun (e. integral, táknað með ∫) fyrir jöfnuna lítur út er nóg að skrifa integral x^2 í gluggann og Wolfram|Alpha kemur með svarið. Eins og vera ber er einnig hægt að tengjast Wolfram|Alpha í gegnum vefþjónustur sem aðrir þjónustuaðilar, hugbúnaðarframleiðendur eða áhugasamir nemendur og kennarar geta nýtt sér.

Þannig hefur Samsung nýtt sér þessar vefþjónustur til að tengja saman rithandargreiningu í Galaxy Note spjaldtölvum við Wolfram|Alpha og útkoman er virkilega góð og vel til þess fallin að aðstoða námsmenn sem fyrir vikið geta leitað sér aðstoðar hjá Wolfram|Alpha svo lengi sem þeir geta skrifað það sem þeir vita á spjaldtölvuna.

Wolfram|Alpha er ein allra athyglisverðasta þjónusta sem internetið hefur alið af sér og veitir appið handhægan og einfaldan aðgang og innsýn inn í heim vísinda og mannlegrar þekkingar.

Kostir

Veit allt
Frábær uppspretta fróðleiks og þekkingar

Gallar

Getur verið erfitt að komast í gang