Warning: Declaration of UL_Class_Walker::start_lvl(&$output, $depth) should be compatible with Walker_Nav_Menu::start_lvl(&$output, $depth = 0, $args = NULL) in /var/www/vhosts/tvr.is/snjallskoli.is/wp-content/themes/saman/inc/wp3menu.php on line 14

Warning: Declaration of Walker_Category_Filter::start_el(&$output, $category, $depth, $args) should be compatible with Walker_Category::start_el(&$output, $data_object, $depth = 0, $args = Array, $current_object_id = 0) in /var/www/vhosts/tvr.is/snjallskoli.is/wp-content/themes/saman/inc/posttypecategories.php on line 3
Þrír lykilþættir við innleiðingu snjalltækja í skóla | SNJALLSKÓLI

Þrír lykilþættir við innleiðingu snjalltækja í skóla


Warning: count(): Parameter must be an array or an object that implements Countable in /var/www/vhosts/tvr.is/snjallskoli.is/wp-content/plugins/microkids-related-posts/microkids-related-posts.php on line 645

Hér verður fjallað um þrjá lykilþætti sem hafa þarf í huga við innleiðingu snjalltækja í skólum. Orðunum er fyrst og fremst beint til skólastjórnenda og kennara og er ætlað að leggja þeim til einhverskonar hugarsýn yfir væntanlega þróun mála. Efni greinarinnar leggur megináherslu á sjálfa innleiðinguna, þ.e.a.s. eftir að val á tækjabúnaði hefur farið fram. Grunnurinn er að gefa sér góðan tíma til að byggja upp reynslu og þekkingu á hinni nýju tækni, sem traust kennara og stjórnenda byggir á þegar hugað er markvisst að skóla framtíðarinnar.

1. Þjálfun kennara

Það tekur kennara (sem og aðra) nokkurn tíma að kynnast og venjast hinu nýja tæki, spjaldtölvunni, og þeirri nýju tækni sem hún felur í sér. Hér er þekkingar þörf og sú þekking felst ekki eingöngu í að vita hvað hægt er að gera með tækinu. Spjaldtölvur eru mikið tækniundur og geta virst yfirþyrmandi í byrjun.  Þess vegna er mikilsvert að gefa kennurum rúman reynslutíma áður en ætlast er til þess að þeir noti tækin í kennslu. Ekki er mælt með því að  kasta kennaraliðinu óundirbúnu í spjaldtölvuvædda kennslu. Jafnframt eru það gömul sannindi og ný að þegar innleiða á hvers kyns breytingar er hyggilegra að fá fólk í lið með sér snemma í ferlinu þannig að það fái hlutdeild í verkefninu fremur en að stjórnendur reyni að draga vagninn einir.

3LMynd1

Tvær meginhliðar eru á þekkingunni sem kennarinn þarf að öðlast. Kennarinn þarf annars vegar að venjast tækinu með daglegri notkun á tölvupósti, youtube, facebook, twitter, myndavél, dagbók o.fl. og hins vegar að  kynnast forritum sem gætu nýst við kennslu.

Dagleg notkun varðar reynsluþekkingu kennarans af tækinu og tækninni og stuðlar að aukinni meðvitund um tækniundrið. Tækið er t.d. það öflugt að auðvelt er að gleyma sér í því. Spjaldtölvan er í senn nálæg (handhæg og býður upp á úrval kosta) og nærgöngul (áleitin). Snjalltæknin felur þannig ekki eingöngu í sér jákvæða þætti, heldur (mögulega) einnig neikvæða þætti – sem mikilsvert er að vera vakandi yfir m.a. til þess að geta tekist á við þá eða jafnvel komið í veg fyrir að þeir brjótist fram. Þess vegna er gagnlegt að kennarar kynnist af eigin raun hve „ágeng“ tækin geta verið og þar með hvaða áhrif tækin geta haft á nemendur. Jafnframt þarf að gera nemendum skýra grein fyrir þeirri staðreynd að það sem fer á netið er og verður ætíð opinbert og aðgengilegt öllum – en fjallað verður nánar um þær hliðar málsins síðar.

Einungis með því að umgangast og nota tækið öðlast kennarar nauðsynlega meðvitund um eðli tækisins og tækninar og þekkingu á notkunarmöguleikunum. Til þess þarf rúman reynslutíma. Samráðsfundir kennara um nýfengna reynslu hefur einnig hvetjandi áhrif á þá að nýta prufutímann vel.

Hin hliðin, að kynnast forritum, varðar öppin sem nota á til kennslu og vitanlega að læra á þau. Um er að ræða heilan frumskóg af möguleikum. Hvert þeirra krefst kunnáttu við notkun. Það þarf því að læra/kenna á forritin og ýmsar leiðir eru til þess – allt frá fikti upp í skipulögð námskeið. Ágæt leið er að kennarar skipti á milli sín forritum og miðli síðan reynslu sinni á samráðsfundum. Slíkt samstarf hefur hvetjandi áhrif á kennarana, eflir framgang þróunarinnar, gerir mögulega notkun markmiðstengdari o.s.frv. Sumir skólar hafa ráðið utanaðkomandi þekkingaraðila til verksins en líklega fyrirfinnast í hverjum skóla einmitt slíkir þekkingaraðilar sem með áhuga og fikti hafa skapað sér forskot. Þessir aðilar hafa síðan tekið á sig hlutverk leiðtoga. Hlutverk leiðtoga er að kynna sér öpp og kenna svo öðrum. Með aukinni þekkingu kennaranna á forrritunum bjóðast nýjir möguleikar við að efla hana enn frekar.

Sæmundarskóli hóf innleiðingu á snjalltækjum á því að kennarar fengu spjaldtölvur með sér heim sumarið 2013. Þau mynduðu lokaðan facebook hóp þar sem þau settu inn efni um hvernig má nota spjaldtölvur í námi og kennslu, settu inn hugmyndir um öpp, deildu reynslu sinni og sýn og tóku einnig þátt í öðrum hópum sem áhuga hafa á þessari þróun. Sæmundarskóli hefur síðan m.a. notast við aðferð sem þau kalla polla. Þá koma nokkrir kennarar saman til að læra á eitt (eða fleiri) app, skoða og ræða kosti, galla og önnur sambærileg forrit. Fagkennarar eru ekki allir að notast við sömu forritin og innan hvers fags er þörf á leit og þróun mála. Ekki síður mikilvægt er að miðla reynslunni þverfaglega. Enginn skóli er eins; kennarar eru ólíkir og markmiðin fyrir spjaldtölvunotkuninni til að byrja með kannski gerólík. Fyrir hvern skóla er því um að ræða spennandi þróunarvinnu þar sem virkja þarf kennaraliðið til þátttöku.

Aðalmálið er að þessi tvíþætta þjálfun eigi sér stað meðal kennaranna. Sú þjálfun og þekkingaröflun krefst tíma. Ýmsar ánægjulegar og krítískar umræður munu spinnast upp í kjölfarið sem vert er að gefa góðan gaum (tæknilegar, siðfræðilegar, markmiðstengdar, praktískar, varðandi nemendanotkun o.s.frv.).

2. Umgengnisreglur

Áður en stóra stökkið er tekið þarf að prufukeyra búnaðinn í skólanum. Í mörg tæknileg horn er að líta, s.s. varðandi nettengingar, niðurhal, gagnageymslu, eldveggi o.fl. Sæmundarskóli fékk til að mynda lánað tæki til að prufukeyra í skólanum og rakst þá á nokkra tæknilega hnökra varðandi hvar þráðlausa netið virkaði, hvernig stilla þurfti eldveggi o.fl. Það eru þannig ýmis  tæknileg grunnatriði sem þurfa að vera til staðar en viðbúið og eðlilegt er að þróa þá hlið mála samhliða aukinni notkun spjaldtölva í skólastarfinu. Auk hinnar tæknilegu hliðar er þörf á að setja ákveðnar umgengnisreglur um tækin. Umgengnisreglurnar hafa í megindráttum tvær hliðar: eina praktíska sem snýr einkum að kennurum og aðra félagslega sem snýr einkum að nemendunum.

Hinar praktísku reglur snúa fremur að kennurum en nemendum. Hér er um að ræða atriði eins og hvar tækin eru geymd, hvernig vilja menn koma að tækjunum, hvaða forrit eiga að vera á þeim og hvar (einkamöppur kennara eða sameiginlegt) o.s.frv. Því þegar nota á spjaldtölvur í kennslustund er hreint ömurlegt að koma að tækjunum rafmagnslausum, eða ekki á sínum stað. Til að koma í veg fyrir slíkt má t.d. setja umsjónarmann sem gengur frá tækjunum og kemur þeim í hleðslu. Ef skólinn hefur einungis fá tæki til afnota er mögulegt að notast við tækjabókunarkerfi (t.d. það sem Mentor býður upp á) þannig að kennarar geti gengið að því vísu að tækin séu laus þegar á að nota þau. Ef hver og einn nemandi hefur tæki fyrir sig (sem margir skólar kjósa) snýst málið einkum um að hver og einn sjái um sitt tæki.

Sérhver leikur þarfnast regluramma svo hann breytist ekki bókstaflega í óleik. Eins og áður sagði er spjaldtölvan öflugt tæki (bæði nærgöngult og nálægt) og þess vegna er nauðsynlegt að kenna hvernig umgangast á slíkt tæki. Það þarf að kenna börnum ákveðnar félagslegar umgengnisreglur við notkun spjaldtölva. Sem dæmi má taka hvernig umgangast skal netið, hvað telst boðlegt og hvað óviðeigandi í hinum ýmsu aðstæðum (myndbirtingar, orðfæri, einelti o.fl. á ýmsum miðlum netsins) eða hvort fýsilegt sé að nemendur séu uppteknir á samfélagsmiðlum meðan þeir eiga að vera fylgjast með í kennslustund.

Til að stuðla að markvissri notkun nemenda í kennslustundum eru nokkrar leiðir til að stýra netaðagangi. Það finnast öpp sem gera kennara kleift að setja inn ákveðnar síður þannig að nemendur hafi bara netaðgang að fyrirfram ákveðnum netsíðum svo dæmi sé tekið. Nefna má í þessu sambandi tækjastjórnun og svokallaðar MDM lausnir (e.Mobile Device Management) þar sem m.a. má fylgjast með og stýra notkun snjalltækja. Í spjaldtölvunni sjálfri er líka „verkefnastjórnun“ þar sem hægt er að skoða hvaða forrit eru opin sem nemandi var að gera. Svo það eru ýmsar leiðir til að stýra og stjórna netaðgangi (meira um það síðar).

3LMynd2

Hver og einn skóli þróar með sér ákveðnar reglur fyrir sína nemendur. Það eru samt nokkur atriði sem ekki verður umflúið að setja reglur um, m.a. þau atriði sem nefnd hafa verið hér. Einnig fara menn ólíkar leiðir við innleiðingu reglnanna. Ein leið er t.d. að útbúa beinlínis kennsluefni sem lýtur að góðum samskiptum á netinu og ábyrgri notkun samfélagsmiðla í ætt við það sem SAFT hefur staðið fyrir. Samráð við foreldra skiptir miklu máli hvað þróun umgengnisreglnanna varðar, hvaða hugmyndir og þekkingu þeir hafa á málinu og hvað er leyft heima fyrir, svo að allir séu samstíga. Nánar verður fjallað um þessi mál annars staðar í Snjallskólanum.

Sama hvernig regluramminn lítur út á endanum er eitt alveg víst: hann krefst tíma í þróun og aðlögun. Þegar hér er talað um “regluramma” er ekki verið að meina neitt ítarlegt regluverk, heldur að mjög ákveðnar og einfaldar reglur séu settar, þeim gefin ákveðin mótunartími svo að nemar og kennarar þekki þær vel og þessar grunnreglur eru síðan fínpússaðar eftir þörfum. Þar sem spjaldtölvutæknin veitir nemendum aukið frelsi sér maður í hendi sér að loki maður “nýfengið frelsið” strax inni í of þröngu búri er hætta á að lítil eða dræm frelsisupplifun eigi sér stað hjá nemendunum. Svo að sem eðlilegust þróun á grunnreglunum eigi sér stað í hverjum skóla fyrir sig er því talið skynsamlegt að byrja með skýran og einfaldan ramma sem mun þróast og breytast eftir því sem kennsluhættirnir taka breytingum.

Hvað snýr að kennaranum sjálfum er hans stóra skref markviss kennsla með tækinu m.t.t. höfuðmarkmiða skólans. Skynsamleg nálgun á því verkefni getur verið að aðlaga tækið að kennsluefni og kennslulagi sem hann þekkir vel og hefur notast við í stað þess að gleyma sér fyrst um sinn í regindjúpi möguleika tækisins (t.d. tæknilegum frumskógi forritanna). Þannig getur kennarinn sett sér skýr markmið til hvers tækið er notað og hvað það á að gera fyrir hann. Skýr markmið hjálpa honum að innleiða tækið í hans eigin kennslu og auðvelda honum að meta árangurinn. Hér er hugsunin í senn að geta lagt kalt mat á tækjakostinn (þekkja kosti og galla, tækifæri og vankanta) og á sama tíma geta aðlagað tækið að persónulegum kennsluháttum (að hver kennari færi tæknina inn í sinn þægindaramma). Með aukinni þekkingu og reynslu stækkar þægindarammi kennarans og því má leiða líkur að því að hann verði opnari fyrir nýjum kennslu- og námsleiðum með aðstoð spjaldtölvutækninnnar.

3. Hin eiginlega þróun kennslu hefst

Þegar hér er komið í þróuninni hefur myndast ákveðin grunnreynsla og þekking af spjaldtölvutækninni innan skólans, tilraunakennsla hefur átt sér stað og umgengnisreglur hafa fengið sinn tíma til að fá eðlilega mynd. Ef kennaralið skólans hefur tekið virkan þátt í innleiðingunni frá upphafi og átt samsráðsfundi um reynslu hópsins af tækjunum er nokkuð víst að önnur veigamikil umræða hafi sprottið upp: Hver eru markmiðin með spjaldtölvuvæðingunni? Slík umræða varðar ekki bara hagnýt notagildi spjaldtölvutækninnar heldur einnig hugmyndafræðilega þróun á kennsluháttum skólans því hvernig á skóli framtíðarinnar að vera? Hvernig er kennt og hvernig er lært? Hverju þarf að breyta og hvernig geum við breytt, o.s.frv. Umræður um að þróa hið hefðbundna iðnaðarsamfélagsskólamynstur, jafnvel gera róttækar breytingar á því, eru ekki nýjar af nálinni. Hér gefst ekki ráðrúm til að fara dýpra í þá sálma, en óhjákvæmilega mun árangur innleiðingaerfiðisins verða bundin þeim markmiðum, viðhorfum og sýnum sem skólastjórnendur og kennarar hafa á “skóla framtíðarinnar”. Stóra spurningin er: Hverju á spjaldtölvuvæðingin að breyta? E.t.v. er hluti af því svari fólginn í því að mynda sér reynslu og þekkingu af spjaldtölvutækninni, án hvers maður stendur í skugga vanþekkingarinnar, giskandi á hugsanlega kosti og galla, óljósa möguleika og tækifæri.

Það er fyrst þegar bæði kennari og nemendur hafa vanist spjaldtölvunni sem vinnutæki, að gera má ráð fyrir hinni eiginlegu kennslu- og námsþróun. Vinnan hefur hingað til verið undirbúnings- og breytingarstarf, einkennst af innleiðingu nýrrar tækni í mörgu tilliti, mikil vinna farið í að byggja upp þekkingu, skilning og traust, með fókus á að tæknin þjóni starfseminni sem best. Allur sá undirbúningur þjónar sem gróðurmold fyrir væntanlegan vöxt og uppsprettu og því eðli málsins samkvæmt að uppskeran felist að miklu leiti í hversu vel er staðið að öllum undibúningi. En hverju á allur undirbúningurinn að skila okkur? Hvers konar uppsprettu er að vænta?

3LMynd3

Í sannleika sagt er spjaldtölvuvæðing skólastofnanna stutt á veg kominn ef horft er yfir hið stóra menntasvið. Þó má finna skóla hér og þar um heiminn sem hafa áralanga reynslu af notkun spjaldtölva og almennur áhugi fer ört vaxandi. Undantekningarlítið tala menn um aukinn áhuga nemendanna þar sem að stór hluti námsumhverfisins er orðinn gagnvirkur. Þónokkuð er talað um „Fresh Education Moment“ þegar rætt er um spjaldtölvutæknina. Hið „ferska“ vísar til nýs tækifæris til að breyta viðhorfum manna til kennslu/náms og felst það tækifæri ekki síst í miklum áhuga ungmenna á hinni nýju tækni. Áhugi á að leysa verkefni í tölvunni er einnig mikill; fög sem áður þóttu þurr eða leiðigjörn fá annað tækifæri í huga námsmannanna. Heimildarvinna, ljósmyndun og gagnasöfnun tekur minni tíma og óhefðbundnar aðferðir við lausn verkefna eru hluti af nýrri tækni (s.s. myndbandagerð) og margt fleira. Heilt yfir eru áhrifamestu og jákvæðustu reynslusögurnar að finna hjá þeim skólum sem farið hafa “all in”, þ.e. lagt mikla vinnu í að mennta og hvetja starfsfólkið, unnið í mikið í markmiðssetningu og öðru því sem fjallað hefur verið um hér í þessari grein.

Að lokum

Í upphafi skyldi endinn skoða, segir máltækið. Það á svo sannarlega við þegar þróun skólastarfs er annars vegar – og þegar til greina kemur að nýta snjalltæki í skólastarfi. Þar er mikilvægast að kennarinn sé vel undirbúinn, þekki tækið og tæknina nægilega vel til þess að líða vel með að gera breytingar á kennsluháttum sínum. Jafnframt er gagnlegt að móta skýrar umgengnisreglur: praktískar og félagslegar. Þessu undirbúningsstarfi þarf að gefa rúman tíma þannig að sem eðlilegastar reglur séu settar og að samtímis sé unnið að markmiðssetningu. Ef vel er hugað að þessum atriðum, mun þriðja skrefið – hin eiginlega ávöxtun skólastarfsins – eiga sér stað; jafnvel hafa í för með sér breytingar á kennslu- og námsháttum. Ef ekki er hugað vel að þessum þáttum er hætt við að góðar hugmyndir verði rafmagnslausar á miðri leið.

One response to “Þrír lykilþættir við innleiðingu snjalltækja í skóla”

  1. […] internetsins nauðsynleg. Það fer því betur á því að að setja sanngjarnar og eðlilegar umgengnisreglur í stað þess að banna tækin […]