Warning: Declaration of UL_Class_Walker::start_lvl(&$output, $depth) should be compatible with Walker_Nav_Menu::start_lvl(&$output, $depth = 0, $args = NULL) in /var/www/vhosts/tvr.is/snjallskoli.is/wp-content/themes/saman/inc/wp3menu.php on line 14

Warning: Declaration of Walker_Category_Filter::start_el(&$output, $category, $depth, $args) should be compatible with Walker_Category::start_el(&$output, $data_object, $depth = 0, $args = Array, $current_object_id = 0) in /var/www/vhosts/tvr.is/snjallskoli.is/wp-content/themes/saman/inc/posttypecategories.php on line 3
Skrímsli í skólanum | SNJALLSKÓLI

Skrímsli í skólanum

Listgreinakennarar í Sæmundarskóla í Grafarholti voru með nemendur í miðaldaþema á haustönn 2014. Farin var ferð á Þjóðminjasafnið og lögð var áhersla á að skoða fléttur sem tíðkuðust í útskurði, skarti o.fl. Í framhaldinu var unnið áfram með viðfangsefnið, m.a. gerðar fléttulágmyndir og kynjaverur í jarðleir. Sigurlaug Jóhannsdóttir listgreinakennari í Sæmundarskóla notaði tækifærið og tengdi saman tímana tvenna með því að bjóða nemendum að  vinna þematengt myndlistarverkefni á spjaldtölvur.

Forsagan

Í vor hafði Birgir Rafn Friðriksson hjá Snjallskólanum fengið að kynna fyrir listgreinakennurum Sæmundarskóla nokkur spennandi verkfæri fyrir snjalltæki. Um var að ræða heimsókn þar sem nemendur og kennarar fengu kynningu og leiðsögn á forritunum Sketchbook, Photoeditor og Pixlr-o-Matic (öll bjóðast forritin ókeypis á Google Play). Sigurlaug  hafði áhuga á að nýta þá reynslu, vinna þematengt og út frá fyrirfram gefnum kennslumarkmiðum.

Tækin, nemendahópurinn og tíminn

Sæmundarskóli býður nemendum sínum aðgang að Android tækjum, í þessu tilfelli Galaxy Note 10.1″ spjaldtölvum, en þær henta sérlega vel til myndrænnar vinnslu, vegna sérstaks penna (e. S-pen) sem þeim fylgir auk þess sem skjárinn er þrýstinæmur (sem gerir gæfumuninn þegar kemur að því að teikna). Með pennanum má skrifa beint á skjáinn, teikna, nota hann sem mús o.fl. Góð þráðlaus tenging er í listgreinadeildinni og netaðgangur því greiður fyrir nemendur. Til hagræðingar eru spjaldtölvurnar merktar með númeri og skráði Sigurlaug niður númerin og nafn þess sem fékk viðkomandi spjaldtölvu þannig að nemendurnir notuðu alltaf sömu tækin.

Ellefu nemendur úr 6. og 7. bekk tóku þátt í smiðjunni. Áður en nemendurnir snéru sér að hinni rafrænu myndsköpun unnu þeir m.a. lágmyndir í leir. Spjaldtölvuhlutanum var úthlutað fjórar 70 mínútna kennslustundir. Birgir aðstoðaði í tveimur þeirra.

skrimsliHopurinn

Markmiðin

Sigurlaug vildi kynna nemendum möguleikana sem felast í listsköpun með tölvum og sýna þeim verk listamanna sem vinna sín verk rafrænt (þar sem tölvur eru notaðar sem liður í listrænni framleiðslu eða að verkið sjálft sé rafræns eðlis). Sett hæfniviðmið voru að nemandi:

  • kynnist helstu einkennum íslenskrar myndlistar frá miðöldum
  • geti nýtt sér helstu einkenni í eigin myndverki hvort heldur unnið er með leir eða spjaldtölvur
  • geti greint á milli tvívíddar, þrívíddar og lágmyndar
  • geti nýtt sér spjaldtölvu í einfalda myndvinnslu og kynnist möguleikum hennar í skapandi vinnu

Framkvæmdin

Smiðjan hófst á leirverkefnum og heimsókn í Þjóðminjasafn.  Síðan var ein kennslustund notuð til að kynna spjaldtölvurnar og forritin áður en Birgir kom í heimsókn til aðstoðar og leiðsagnar. Í fyrri tímanum sem Birgir var var byrjað með sýnidæmum; hvernig nota má spjaldtölvur og stafræna myndvinnslu á mismunandi og fjölbreyttan hátt. Sýnd voru t.d. ljóslistaverk sem notast við upptökur með flygildi (e. drone), photoshop-verk, teikningar og málverk. Sérstaka lukku meðal nemenda vakti listmálarinn David Hockney, sem hefur á gamals aldri nýtt sér spjaldtölvur til að mála á. Hann hefur sýnt þau verk, bæði á skjá og líka látið prenta verkin út og hafa sýningar hans vakið mikla athygli 1. Þar á eftir var farið yfir verkefnið sem nemendur áttu að vinna og var í stuttu máli:

  • að taka sjálfsmynd (ljósmynd)
  • leita síðan að myndum af kynjaverum frá miðöldum á netinu og hala niður á tækið.
  • Færa síðan myndirnar inn í Sketchbook og vinna þær saman í eina mynd, m.a. með því að teikna ofan í þær, klippa þær til, stækka og minnka og gera bakgrunn.

Í seinni tímanum sem Birgir Rafn var með hópnum unnu nemendur eigin verk áfram og luku verkefninu. Nemendur fengu svo eina kennslustund til viðbótar til að vinna í spjaldtölvunum og nýta nýfengna kunnáttu sína frekar.

Niðurstöður

Verkefnið gekk vonum framar. Myndsköpunarforritið Sketchbook var nær eingöngu notað en myndvinnsluforrit á borð við Photoeditor (eða Pixlr) bjóða uppá ýmsa möguleika til að vinna myndirnar áfram, s.s. skera þær til, laga eða breyta litum og áferð o.s.frv. E.t.v. hefði mátt nota fjórðu kennslustundina í það að búa til útgáfur af upprunalega verkinu.

Í fyrri tímunum var nokkuð um einbeitingarleysi. Það eitt að taka sjálfsmynd sem „virkar“ getur verið erfitt á vissum aldri. Einnig var óvissa um hvaða kynjaverur væru nógu góðar og margskonar hugmyndir viðraðar (t.d. nútíma teiknimyndaskrímsli). Að lokum voru þó allir sáttir með sjálfsmyndina og val á skrímslum/kynjaverum. Fljótlega var því farið í hvernig vinna mætti myndirnar saman og krökkunum kynntur lagskiptingarmöguleiki Sketchbook.

Í þriðju kennslustundinni, seinni tíma heimsóknar Birgis, sýndu nemendur mikinn áhuga og greinilegt að þau vissu að hverju þau voru að ganga. Sá tími nýttist nemendunum mjög vel; þeir voru afar áhugasamir sem sýndi sig í að kennarar voru mjög uppteknir að svara spurningum um og að sýna möguleika Sketchbook verkfærisins. Allir náðu að ljúka verkefninu og koma með sína útgáfu í lok þriðja tíma.

kynjaverur

Aðspurðir sögðust nemendur vera virkilega ánægðir með niðurstöðurnar og vera dálítið hissa á því hvað hægt er að gera. Mikil ánægja var með pennann (e. S-pen) og að geta teiknað ofan í myndir.

Sigurlaug er einnig ánægð með reynsluna og segir hana hafa gefið sér góða sýn á frekari notkunarmöguleika. A.m.k. ætlar hún að halda áfram notkun spjaldtölva í myndlistakennslu og gera fleiri tilraunir með tæknina.

Til umhugsunar

Það sem læra má hér er að til þess að nemendur noti netið markvisst þurfa fyrirmælin að vera mjög skýr og afdráttarlaus hverju sinni. Til að mynda þurfa þau leiðsögn með að hverju er verið að leita (hvaða leitarorð má/á að nota), hvar og hvernig maður leitar fanga (kennsla á google.com, t.d. að hægt er að leita eingöngu að myndum). Ef nemendur kunna að leita með skilvirkum hætti á netinu geta þau nýtt meiri tíma til að vinna sín verk.

Annað er að kennarinn þarf að hafa kynnt sér forritin (verkfærin) vel til að geta aðstoðað nemendurna með tæknileg atriði, s.s. hvernig á að velja liti, stilla stærð og þykkt línu, hvernig færa má til myndlög, smækka þau og gera gagnsæ, svo eitthvað sé nefnt. Þessar forsendur verða að vera fyrir hendi sé ráðist beint í að vinna þemaverkefni, en önnur leið er vissulega fær, þó kennslumarkmiðin breytist við það. Það getur verið góð leið að skipta nemendum  upp í smærri hópa og láta þau „uppgötva“ saman möguleika verkfæranna sjálf og miðla síðan til hinna í lok tímans. Þessi leið er meira rannsóknarleg en skapandi. Kennslumarkmið slíkrar kennslustundar væru þá meira tengd kennslu á spjaldtölvurnar og netinu, þar sem verið er að auka hæfni nemenda í að nýta sér netaðganginn markmiðatengt og gagnlega. Miðað við tækniþróun og almenna útbreiðslu hennar undangenginna ára, fellur sjálfbærni og miðlalæsi vissulega hér undir líka. Ef við veltum vöngum  yfir því hvernig sú kennslustunnd gæti tekið sig út þá mætti skipta nemendum upp í smærri hópa þar sem hver hópur á að kynna sér forrit, læra aðeins á það og miðla svo því sem þau komast að til samnemendanna í lok tímans. Þannig getur kennarinn líka fylgst með hversu sjálfbjarga þau eru í þessum málum og lagt mat á hæfni þeirra í að umgangast netheima. Og ekki er verra að þau þjálfi samvinnu- og samstarfshæfnina í leiðinni.

skrimsliEinkennismynd

 

  1. Sjá nánar stafræn málverk sýnd á skjá og stafræn málverk, útprentuð.

Comments are closed.