Warning: Declaration of UL_Class_Walker::start_lvl(&$output, $depth) should be compatible with Walker_Nav_Menu::start_lvl(&$output, $depth = 0, $args = NULL) in /var/www/vhosts/tvr.is/snjallskoli.is/wp-content/themes/saman/inc/wp3menu.php on line 14

Warning: Declaration of Walker_Category_Filter::start_el(&$output, $category, $depth, $args) should be compatible with Walker_Category::start_el(&$output, $data_object, $depth = 0, $args = Array, $current_object_id = 0) in /var/www/vhosts/tvr.is/snjallskoli.is/wp-content/themes/saman/inc/posttypecategories.php on line 3
Moodle námsvefurinn með augum Önnu Maríu | SNJALLSKÓLI

Moodle námsvefurinn með augum Önnu Maríu


Warning: count(): Parameter must be an array or an object that implements Countable in /var/www/vhosts/tvr.is/snjallskoli.is/wp-content/plugins/microkids-related-posts/microkids-related-posts.php on line 645

Moodle er líklega það námsumsjónakerfi sem flestir hafa heyrt um. Anna María Þorkelsdóttir, dönskukennari og verkefnastjóri í Hólabrekkuskóla í Reykjavík, hefur notast við Moodle í sínu starfi og eftir þá reynslu gerst ötull talsmaður námsumsjónakerfa. Hér má kynnast sýn Önnu Maríu nánar. 

Ævintýri sem að hófst fyrir 4 árum

Kennarar í Hólabrekkuskóla hafa verið að nota námumsjónarkerfið Moodle síðan Reykjavíkurborg bauð fyrst upp á það eða fyrir 4 árum (2011). Í fyrstu hét síðan Netskóli Reykjavíkur en eftir að skólar í öðrum sveitarfélögum sýndu aukinn áhuga á kerfinu var tekin ákvörðun um að leyfa öllum áhugasömum grunnskólum að tengjast því og samhliða var nafninu breytt í Námsvefur grunnskólanna (http://netnam.reykjavik.is/). Námsumsjónarkerfi eru góð viðbót við þá kennsluhætti sem tíðkast í skólum, þar sem próf, hefðbundin verkefnaskil, ítarefni og myndbönd eru sett inn á netið og nemendur geta nálgast verkefnin sín á einni síðu – í raun hvar og hvenær sem er.

 Moodle Gaukar

Moodle er tæki fyrir kennara

Moodle virkar sem tæki til að halda utan um nám og kennslu og það á að stuðla að aukinni samvinnu kennara og að gera nám meira einstaklingsmiðað. Kerfið var hannað sem doktorsverkefni hins kennaramenntaða Ástrala Martins Dougiamas og kom fyrst út árið 2002. Síðan hefur Moodle aldeilis vaxið fiskur um hrygg og sýna nýjustu tölur að Moodle er notað í yfir 8 milljónum áfanga víða um heim, af yfir 76 milljónum notenda, sem allir nota það frítt. Á þessum 13 árum hefur kerfið verið þýtt yfir á meira en 100 tungumál og er íslenska eitt af þeim.

 

Moodle er, eins og ég upplifi það, fyrst og fremst kennaravefur. Það er kennarinn sem stjórnar og það er kennarinn sem stýrir hvaða efni er lagt inn á vefinn. Það sem nemandinn setur inn eru eigin verkefni eða þátttaka í umræðum. Þrátt fyrir að vefurinn sé fyrst og fremst kennarastýrður í dag eru alltaf að koma nýjar viðbætur (e.Plugins) til að svara kalli notenda um fjölbreyttari lausnir og notkunarmöguleika. Ég tel það reyndar vera mikinn kost að ekki sé hægt að gera allt í gegnum eina síðu og notast þannig eingöngu við eina leið eða eitt kerfi. Fjölbreytni er af hinu góða og heldur manni á tánum, þannig að því fleiri lausnir sem nemendur vinna með þeim mun betur læra þeir að bjarga sér í hinu stafræna umhverfi. Aftur á móti er það afar hentugt að hafa eina síðu þar sem meira eða minna allt kennsluefni er aðgengilegt, t.d. hvað snýr að samnýtingu og varðveislu kennsluefnis.

 

Í Moodle má búa til gagnvirkt verkefni. Það er gríðarlegur tímasparnaður og því mjög eftirsóknarvert fyrir kennara. Það er t.d. mjög gott að þurfa ekki lengur að fara yfir krossapróf, eyðufyllingar eða annað sem ekki telst til frjálsrar ritunar. Auk þessa eru innan kerfisins kennslumiðaðar lausnir sem ekki eru aðgengilegar á auðveldan hátt nema í gegnum Moodle, til að mynda svokallaður kennslustundarmöguleiki (e. Lessons).

 

Einn af stóru kostunum er aukin einstaklingsmiðun

Það sem gerir námsvefinn að aðlaðandi hjálpartæki nemenda er að það geta allir verið að vinna á sömu síðu, hvort sem nemandinn flýgur svo að segja áfram í náminu eða þarf mikla aðstoð, einnig í sérkennslu. Sérkennslunemendur gera þau verkefni sem henta þeim og þeir geta fengið lengri tíma til þess að ljúka verkefnum og prófum. Á meðan gera aðrir nemendur sín verkefni, önnur og fleiri – sumir ljúka jafnvel öllum tiltækum verkefnum í kerfinu. Enginn er þó sjáanlega með öðruvísi námsefni, sem ég tel vera mikilvægt fyrir bekkjarheildina. Verkefnin reynast – og munu halda áfram að reynast – nemendum miserfið, en ef mikið efni tiltækt á netnámsíðunni geta dugmiklir nemendur jafnvel farið langt inn í námsefni næsta árs, ákveði kennarinn að opna á þann möguleika.

 20150407_11084120150407_110702Mynd a

Með því að nýta námsvef, hvort sem hann heitir Moodle eða eitthvað annað, er einnig verið að brjóta niður veggi kennslustofunnar og færa kennsluna þangað sem nemandanum hentar best að læra. Ef að nemandi vill læra í “tómu stofunni” og vera í friði þar, er það góður valkostur fyrir hann. Sé námsefnið sett þannig upp þarf kennarinn ekki að vera fylgjast með honum þar, þar sem kennslan og námsefnið er í námsumhverfi  á netinu. Svo má líka bæta við að eftir “góðan” íslenskan vetur má svo sem líka alveg liggja á ströndinni á Kanarí og vinna verkefnin sín þar. Reynslan sýnir líka að þetta fyrirkomulag hentar sérstaklega vel þegar nemendur eru fjarverandi í langan tíma einhverra hluta vegna, s.s. vegna veikinda. Þeir nemendur geta þá annaðhvort unnið verkefnin heima fyrir eða sinnt þeim þegar þeir koma aftur í skólann. Nemandinn hefur þar með ekki misst af allri kennslu og námi á meðan veikindunum stóð.

 

Áhugi minn á námsumsjónakerfi kviknar

Upphaflega var ég að nota Blackboard í minni kennslu, en Blackboard er námsumsjónarkefnið sem borgin bauð upp á fyrir nokkrum árum. Ég hafði nefnilega þörf fyrir að koma efni til nemenda minna í formi gagnvirkra æfinga og fékk ábendingu um um að prófa þessa leið. Fyrir vorpróf árið 2009 setti ég inn allskonar æfingar fyrir nemendur mína sem lið í prófundirbúningi. Útkoman vakti sérstaka sérstaka athygli mína, en nemendur virkilega vel í þessar tilraunir. Mest kom mér þó  á óvart að forsetninga-æfingar skyldu verða allra vinsælusta námsefnið þar sem lítill áhugi hafði verið fyrir því þegar slík verkefni voru lögð fyrir í hefðbundnum kennslutíma. Í stuttu máli tókst tilraunin vel; nemendur tóku breytingunum vægast sagt fegins hendi og höfðu orð á því að þeir vildu sjá fleiri kennara nýta sér þetta kennsluform og nýtt kennsluform gerði “leiðinlegt” námsefni skemmtilegt. Af þessu að dæma vissi ég að hér væru komnir flottir nýjir kennsluhættir. Af Blackboard er það að frétta að það var lítið notað af kennurum, var líka dýrt í rekstri þannig að árið 2010 var tilraunum með það hætt. En áhugi minn fyrir námsumsjónakerfum var hinsvegar sannarlega kviknaður.

 

Rétt lögð á stað og notagildið sýndi sig strax

Ég kenndi þremur árgöngum dönsku þegar ég byrjaði að safna efni inn á Moodle námsvefinn (2011). Það er enginn sem hefur leikinn með fullt “matarbúr” af tilbúnu og fullkomlega hentugu námsefni. Þar sem að nýtt kennsluform er að ræða, sem að kennarinn sjálfur þarf að hanna og miða út fyrir sína nemendur, þá þarf maður þarf að gefa sér tíma til að prófa og reyna, átta sig á hvað þarf til og hvernig efnið á að virka fyrir alla notendur, kennara og nemendur. Þetta sé ég nú þegar litið er í baksýnisspegilinn, en til að byrja með tók ég einfaldlega ákvörðun um að setja inn eitt próf og eitt verkefni á hverri önn og það inn á hvern árgang. Þetta gerði ég fyrsta árið. En strax haustið efir, þegar ég fattaði hve mikill vinnusparnaður þetta reyndist vera, setti ég fleiri próf og fleiri verkefni inn á síðunar mínar. Fljótlega var kominn myndarlegur kennsluefnisbanki sem ég hef nýtt óspart á hverjum vetri síðan.

 

Með augastað á virkni, hagkvæmni og ánægju

Ég fór fljótlega að velta fyrir mér hvernig ég gæti hagrætt vinnu minni enn meira, því að þessi upphaflegu verkefni og próf voru svo mikill vinnusparnaður. Ég bætti því verkefnaheftunum mínum inn á netnámið líka og öllum málfræðiverkefnunum sem ég hafði eytt ómældum tíma í að fara yfir í gegnum árin. Þar urðu þau gagnvirk, sem þýðir að nemandinn sér árangur sinn einfaldlega um leið og æfingunni er lokið. Hann sér þá sjálfur hvort hann sé á réttri leið – endurgjöfin er umsvifalaus. En þá gerðist nokkuð sem ég sá alls ekki fyrir. Nokkrir nemendur fóru að keppast um stig (rétt svör) og gerðu áður óspennandi danskar málfræðiæfingar að æsilegum og spennandi tölvuleik. Þetta varð til þess að nemendur voru mun duglegri að leita til mín og spyrja mig út villurnar og  löngun þeirra til að bæta um betur strax í næstu æfingu var mikil. Þegar við gerðum æfingarnar á blaði hér áður fyrr voru mun færri nemendur sem leituðu sér aðstoðar í svona verkefnum. Enn ein staðfestingin á því kennslan virkaði vel og að efnið væri að komast til skila með jákvæðum og ferskum hætti. Augljóslega hentar það nemendum vel að fá niðurstöður samstundis, enda er þeirra daglegi veruleiki mikið á þeim nótum. En þegar notast er við gagnvirka miðla má segja að kennarinn stigi til hliðar og nemandinn sjái því betur eigin ábyrgð í málinu. Ef hann er ekki að leysa verkefnin á rétt má alltaf leita sér aðstoðar, spyrja samnemendur eða kennara.

 

Tvennskonar gagnrýni á Moodle kerfið

Flestir framhaldsskólar landsins nota námsvefi, að ég tel allir háskólarnir og þónokkuð er um að grunnskólarnir séu farnir að fikra sig áfram á þeirri braut. Moodle er sá vefur sem flestir skólarnir nota, en hann er þó ekki yfir gagnrýni hafinn frekar en nokkuð annað. Gagnrýnin er af ýmsu tagi, en mér finnst hún þó aðallega vera tvennskonar. Fyrri gagnrýnin er þessi: Erfitt er að gera áfanga í Moodle aðlaðandi/fallega. Síðan þykir þannig ekki hafa sérlega mikið sjónrænt eða fagurfræðilegt aðdráttarafl og jafnvel geta verið fráhrindandi. Með því að setja inn myndir (sem er auðvelt og fljótlært) verður það strax til bóta. Í dag eru einnig komnar viðbætur, sem bjóða m.a. upp á aukið úrval af útlitsþemum. Þær viðbætur gera það að verkum að auðveldara er að hanna útlit áfanganna eftir óskum og þörfum hvers kennara. Þess má einnig geta hér að gagnrýninni er verið að mæta af hinum og þessum sem hafa tekið að sér að hanna og gefa út nútímalegri útlitsþemu fyrir Moodle. Þess ber líka að geta að  kerfisstjórar skólanna þurfa að uppfæra hjá sér síðurnar endrum og sinnum svo að skólar séu ekki að notast við mjög gamlar og stirðbusalegar útgáfur. Tvisvar á ári er boðið uppá uppfærslur í Moodle kerfinu þar sem úrval nýrra og spennandi möguleika eru kynntar.

Moodle viðmót dæmi

Hin megingagnrýnin á Moodle kerfinu er: Kerfið er flókið og því getur það verið erfitt og jafnvel ópraktískt að nota það. Þessar umkvartanir hafa jafnvel borist frá nemendum. Ég tel að Moodle sé eins og hvert annað tæki. Þeim mun betur sem þú þekkir það, þeim mun betur reynist það þér. Reyndar hef ég komist að raun um það að oftast á “flækjan” sér eðlilegar útskýringar. Moodle kerfið gerir nefnilega kennurum kleift að stilla og setja sína áfanga upp á nokkra vegu. Stundum er umrædd flækja falin í því að kennarinn hefur sett upp áfangana þannig að lítil hugsun hefur farið í hvernig aðgengið að efninu er. Til að leysa þessháttar flækjumál hafa skólar (t.d. Menntaskólinn á Tröllaskaga) farið fram á við kennarana að samþætta viðmótið (uppsetningu áfanganna á vefnum) og lagt fyrir að allir áfangar séu settir upp með svokölluðu Vikusniði. Með Vikusniðinu hafa nemendur ætíð góða yfirsýn yfir verkefni vikunnar og þurfa ekki að leita lengi eða hingað og þangað um síðuna að verkefnunum. Samþætting fækkar flækjuþáttunum sem oft fylgja nýjum námsaðferðum og á sama tíma eru fleiri kennarar saman um að finna hentugustu mátana og lausnirnar. Uppsetning, viðmót, aðgengi o.s.frv. Þetta er lykilatriði sem læra þarf inn á þegar nota skal námsvefi.

 

Moodle er sameiginlegt þróunarverkefni

Við erum nokkur sem höfum verið að vinna saman að uppbyggingu og þróun Moodle vefsins. Það gerum við m.a. með því ræða um saman um reynslu okkar og með því að að deila okkar áföngum til þeirra sem hafa áhuga. Þegar ég deili mínum áföngum er það til þess að byrjendur og aðrir fái strax eitthvað efni til að leita í og nota, en einnig til að þeir geti séð og prufað tækifærið á eigin skinni. Fyrir utan kennsluefni okkar má finna á Moodle vefsíðunni áfanga sem voru búnir til alveg sérstaklega, þá með deilingu og samnýtingu í huga. Það efni og þá áfanga má nálgast á forsíðu vefsins og voru þeir gerðir fyrir styrki úr Þróunarsjóði Reykjavíkuborgar. Fleiri slíkir áfangar eru væntanlegir strax á næsta ári (2016).

Samnýting kennsluefnis er auðvitað bæði mikill tíma- og vinnusparnaður og finnst mér það vera í anda námsumsjónakerfa að stuðla að því. Því til stuðnings má segja að af minni reynslu að dæma eru þeir sem nota námsumsjónakerfi yfirleitt mjög áhugasamir um samvinnu og samnýtingu kennsluefnis.

 

Svar óska um kennsluháttabreytingu

Námsumsjónarkerfi eru að mínu viti klárlega nútímalausn fyrir marga nemendur og gríðarleg hjálp til að minnka vinnuálag kennara, þegar kerfið er komið í gagnið. Ég hef hér greint frá kostum og göllum við Moodle kerfið, en það er ekki tæmandi listi. Einn kostur er  t.d. pappírs- og fjölföldunarsparnaður, þar sem fer saman hönd í hönd peningasparnaður og umhverfissjónarmið.

En sama hvernig framtíðarkennsluhættir verða er ljóst að við kennarar þurfum að vera okkur meðvituð um hvaða kennsluform við viðhöfum og þar með hvort mátinn höfði til nemenda. Viið erum svo sannarlega að undirbúa nemendur fyrir þeirra framtíð – sem er ekki okkar fortíð. Ég tel að framtíðin þeirra feli m.a. í sér hið stafræna umhverfi. Námsumsjónarkerfi er því leið til þess að mæta þeim veruleika.

Áhugasömum bendi ég á að hafa samband beint við umsjónarmann Námsvefs grunnskólanna, Flosa Kristjánsson, sem starfar hjá Skóla- og frístundasviði Reykjavíkuborgar (flosi.kristjansson@reykjavik.is ).

 

Comments are closed.