Warning: Declaration of UL_Class_Walker::start_lvl(&$output, $depth) should be compatible with Walker_Nav_Menu::start_lvl(&$output, $depth = 0, $args = NULL) in /var/www/vhosts/tvr.is/snjallskoli.is/wp-content/themes/saman/inc/wp3menu.php on line 14

Warning: Declaration of Walker_Category_Filter::start_el(&$output, $category, $depth, $args) should be compatible with Walker_Category::start_el(&$output, $data_object, $depth = 0, $args = Array, $current_object_id = 0) in /var/www/vhosts/tvr.is/snjallskoli.is/wp-content/themes/saman/inc/posttypecategories.php on line 3
Ísl-enska til alls? | SNJALLSKÓLI

Ísl-enska til alls?

Í starfi mínu sem talmeinafræðingur hitti ég fjöldan allan af börnum og unglingum í viku hverri. Undanfarið hefur það færst í vöxt að þau sem eldri eru, einkum á aldrinum 8-18 ára, eigi erfitt með að tjá sig við mig á íslensku. Þau biðja frekar um að leysa próf og verkefni á ensku þrátt fyrir að vera alíslensk og hafa aldrei verið í öðru málaumhverfi.

Íslenskur orðaforði þessara barna er fátæklegur og máli þeirra er réttast að lýsa sem ,,ísl-ensku”. Þessi ákveðni hópur varð kveikjan að greininni ,,Ég kann þetta ekkert á íslensku” en hún fjallar um stöðu tungumáls okkar á þeim stafrænu tímum sem við lifum á.

Mig hefði aldrei órað fyrir þeim viðbrögðum sem greinin vakti. Svo virðist sem allir og amma þeirra hafi skoðun á stöðu íslenskunnar og séu að mestu leyti sammála um að eitthvað verði að gera til að snúa þessari þróun við. Mér alls ókunnugt fólk hefur í kjölfar þessara skrifa sagt mér frá hinum og þessum sem lesa engar bækur, eyða öllum stundum í tölvunni og muldra eitthvað óskiljanlegt um troll, gúgl, twitter og like.   

Hreintungustefna?

Meðal þess sem gerir íslensku og tungumál almennt áhugaverð er hversu teygjanleg og margbreytileg þau eru. Það að tungumál þróist í tímans rás er einfaldlega til marks um að það sé lifandi. Ég hef til að mynda ekki minnstu áhyggjur af minni íslenskukunnáttu þótt ég fari í crossfit, gúgli ýmislegt og fái mér pizzu. Það er vissulega bæði sláandi og umhugsunarvert að til séu íslensk börn sem kalla blýant pensil (e. pencil), snjóhús iglhús (e. igloo) og kunna orðið rhinoceros en ekki nashyrningur. Það má samt ekki gleymast að þau stöku orð sem taka breytingum innan tungumálsins koma ekki til með að knésetja það. Breytingar á málkerfinu í heild eru langtum meira áhyggjuefni en nokkur dæmi um slíkar breytingar má sjá hér fyrir neðan. Þau eru tekin úr málsýnum barna og unglinga:

 • „Ég hef aldrei í lífi mínu haft svona mikið gaman.”
  (e. I have never in my life had so much fun.)
 • „Já, en hann tók sko sitt eigið líf.“
  (e. He took his own life.)
 • „Ég hugsa að það er rétt.”
  (e. I think that’s right.)
 • „Það skeður ekkert í raunverulegu lífi.”
  (e. That doesn’t happen in real life.)

Málnotkun á borð við þessa má að miklu leyti rekja til tæknivæðingar nútímans en enskan er óopinbert mál tækninnar. Viðmót á ensku í tölvum og snjalltækjum hafa orðið þess valdandi að börn og unglingar líta á ensku sem samskiptamál rafrænna miðla. Hvaða þýðingu hefur þetta fyrir íslenskt mál þegar horft er til framtíðar? Er tungumálið okkar dauðadæmt? Ekki endilega.

RhinoceroesPabbi

Á Íslandi er fjöldinn allur af góðu fólki sem lætur sig stöðu íslenskunnar varða. Hér hefur  meðal annars verið starfrækt máltæknisetur frá árinu 2005 en yfirlýst hlutverk setursins er að vera miðstöð íslenskrar máltækni. Árið 2009 var, í fyrsta skipti í sögu landsins, samþykkt íslensk málstefna á Alþingi. Stefnan ber hið (von)góða heiti Íslenska til alls.

Meginmarkmið hennar er að íslensk tunga verði ekki eingöngu nothæf heldur notuð á öllum þeim sviðum innan tölvu- og upplýsingatækninnar sem varða daglegt líf alls almennings. Í sömu lögum er enn fremur kveðið á um að ríki og sveitarfélög beri ábyrgð á að varðveita og efla íslenska tungu. 

Íslenska til alls

Þetta er hinn fallegasti lagabókstafur og það liggur við að það styrni á tár við lesturinn. En er eitthvað gert til að framfylgja þessari stefnu? Harla lítið. Það væri til að mynda kjörið að styrkja fyrrgeint máltæknisetur um þá fjármuni sem þarf til að fylgja íslenskri máltækni almennilega úr hlaði. Að lágmarki ættu ríki og sveitarfélög að beita sér fyrir því að þau tæki sem eru notuð innan íslensks skólakerfis tali og skilji íslensku þar sem því verður komið við. Það ættu yfirvöld ekki eingöngu að gera vegna þess sem kemur fram í málstefnunni heldur einnig vegna ályktunar um stöðu íslenskrar tungu sem Íslensk málnefnd  sendi frá sér í lok síðasta árs. Í ályktuninni stendur eftirfarandi:     

…Efla þarf máltækni til mikilla muna, meðal annars svo að íslenska verði samkeppnishæf við ensku í umhverfi nemenda en ekki síður í almennu og sérhæfðu umhverfi allra sem nota tölvur og snjalltæki við leik og störf. Vinna þarf að því að öllum þyki sjálfsagt að velja íslensku fram yfir ensku í rafrænu umhverfi.

Eins og sést fer því fjarri að ég sé fyrsta manneskjan til að hafa áhyggjur af stafrænni stöðu íslenskunnar og áhrifum tækninnar á málið. Það er til fjöldinn allur af skýrslum, þingsályktunartillögum, ályktunum og ritgerðum sem sýna fram á alvarleika málsins. Nú er komin upp sú staða að ef fólk opnar ekki augun fyrir þessari vá verða breytingarnar á málinu óafturkræfar.

Að lokum

Tækniframfarir sem miða að því að hægt sé að tala við tölvubúnað hafa verið mjög örar undanfarið og ekki er útlit fyrir að nokkuð hægist á í nánustu framtíð. Á næstu áratugum munum við tala við öll okkar tæki, allt frá brauðristunum til bílanna. Eins og staða íslenskrar máltækni  er núna er aðeins til íslenskur talgreinir fyrir tæki sem keyra Android-stýrikerfi. Hvað verður um íslenskuna ef öll hin tækin skilja hana hvorki né tala? Því er auðsvarað, hún glatast. Við komum kannski til með að þurrka af henni rykið á tyllidögum undir blaktandi íslenskum fánum en hún verður ekki lengur þjóðtunga. Við sem málnotendur og Íslendingar eigum að gera þá kröfu að hægt sé að tala um tækin og við þau á íslensku og þau við okkur sömuleiðis. Stjórnvöld ein og sér bjarga íslenskunni ekki, sérstaklega ekki með þeim sofandahætti sem þar virðist vera ríkjandi. Það kemur í hlut okkar allra að velja íslensku umfram ensku en til þess verðum við að sjálfsögðu að hafa íslensku til að velja.

Með því að velja kerfi og búnað sem tala bæði og skilja íslensku gætu hérlend stjórnvöld sett gott fordæmi og stutt við íslenska málstefnu um leið. Þannig væri einnig hægt að senda þau mikilvægu skilaboð til Microsoft og Apple að opinberir aðilar láti sig íslenskuna varða og ætli sér að standa vörð um hana.

 

Comments are closed.