Flipaclip

 

Flipaclip er virkilega flott teiknimyndaforrit – þ.e. hreyfimyndaforrit – þar sem gera má styttri teiknimyndir með tiltölulega lítilli fyrirhöfn.

 

Lýsing

Flipaclip – Cartoon Animation er framleitt af Visual Blasters LCC og var sérstaklega hannað sem Samsung Galaxy Note smáforrit (sem Samsung S-Penna áskorun). Í forritinu má búa til margskonar smásögur á hreyfimyndaformi þar sem mögulegt er að teikna, lita, færa inn bakgrunna, afrita og fjölfalda hluta eða heilu rammana, vinna lagskipt og margt fleira í þessu skemmtilega forriti. Myndskeiðunum má síðan deila eða vista á eigin tæki, annaðhvort á mp4 og á gif formi.

Flipaclip forritið byggir á myndarömmum (e. Picture frames). Rammarnir koma í ákveðinni röð sem má spila svo að úr verður hreyfimynd. Ef ætti að líkja smáforritinu við eitthvað mætti segja að grunnur þess sé ekki ólíkur því þegar spýtukarlar voru teiknaðir í bókarhorn, síðu eftir síðu og hreyfingin framkallaðist með því að smá breyta stöðu karlanna og fletta blaðhornunum síðan hratt. Flipaclip virkar álíka, forritið þó alls ekki á pappír heldur á stafrænu formi og býður þar með uppá aðri kosti en pappírsaðferðin gerði, s.s. stillanlegan afspilunarhraða og deilingar og dreifingar möguleika. Flipaclip býður uppá ókeypis útgáfu en kaupa má svokallaðan aflæsara (e.Unlocker), sem opnar á Lagstillingar (e. Onion Settings). Þar má stýra og stilla fjölda ramma, sjá hvað kemur fyrir og eftir rammana o.fl. Með kaupaukanum losnar maður líka undan öllu auglýsingafargani, auk þess sem að mögulegt verður að fjarlægja Flipaclip vatnsmerkið við vistun verkefna.

Þegar Flipaclip er opnað opnast það í galleríi forritsins þar sem eldri verkefnin eru annars geymd. Heilu eða hálfu verkefnin blasa því strax við og því auðsótt að halda áfram með hálfkláruð verkefni eða hefja ný. Ef haldið er áfram birtist vinnuumhverfið. Valmöguleikarnir eru í verkfæralínum sitthvoru megin við aðal vinnusvæðið (miðjuna) og neðst, undir vinnusvæðinu, er ramma-línan sem sýnir í hvaða ramma er verið að vinna hverju sinni. Tólin eða eiginleikarnir eru þónokkrir og styðja aðallega við vinnu við fyrrnefnda ramma (s.s. afritunar-tól, ramma-skjár, afspilunartakki o.fl.) og við S-penna Samsung Note tækjanna (strokleðrið, lagskiptingarmöguleikana, litafötuna, lasso-tólið, penna- og litaverkfærið o.fl.). Alltaf má gera vinnuhlé til að skoða afraksturinn og áhrif þess sem komið er. Það er einfaldlega gert með því að ýta á sérstakan afspilunartakka. Forritið býður uppá að vista og deila afrakstrinum á nokkra máta.

 [do action=“mynd“ url=“http://www.snjallskoli.is/wp-content/uploads/2015/05/Animated-Gif-Flipaclip.gif“ device=“s5-white-landscape“ align=“center“ size=“large“/]


 

Sé horft til forritsins með augum kennarans má segja er hér á ferð verulega spennandi og skapandi verkfæri sem býður upp á fjölda kennslutækifæra. Í Flipaclip má nefnilega gera afar einfaldar frásagnir og sníða kröfurnar eftir aldri og getu. Það má velta upp fyrirbærum eins og aðalpersónu og aukapersónu, sjónarhóli og framsetningu, eða hvernig menn miðla hugmyndum, sjónarhornum, sögum, skoðunum o.s.frv. Hvernig væri að sýna líffræðileg fyrirbæri í hreyfimynd eins og frumuskipti? Efnahvörf og tengsl efna í efnafræði? Hér, eins og endra nær, veltur á kennaranum hversu opinn hann er fyrir miðlunarleiðum. En ljóst er að hver sem kennslumarkmiðin munu á endanum verða ætti engum að leiðast þófið þegar unnið er í Flipaclip. Fyrir áhugasama bendir Snjallskólinn á Flipaclip á youtube þar sem má sjá kennslumyndskeið á forritið og dæmi um hreyfimyndir frá öðrum. 

[do action=“mynd“ url=“http://www.snjallskoli.is/wp-content/uploads/2015/05/Gula-húsaskrímslið.gif“ device=“s5-black-landscape“ align=“center“ size=“large“/]


 

Flipaclip er mjög öflugt smáforrit. Reyndar mætti halda því fram að um sé að ræða ekkert „smá”forrit, þar sem appið er hlaðið kostum og nýtilegum verkfærum til margskonar skapandi framkvæmda. Hvað v0iðmótið varðar reynist það vera þægilegt og virka vel. Það er virkilega flott að geta spilað það sem þegar hefur verið gert á einfaldan hátt. Reyndar rekst maður afar fljótt á spurninguna um hvað maður vilji segja, þ.e. hvort ekki sé vert að eyða smá tíma í að búa til söguborð (e.Storyboard), svona þegar maður hafði áttað sig betur á eiginleikum forritsins. Þess sem sárast er þó saknað er hljóð og tilheyrandi valkostir til að gæða hreyfimyndina lífi hljóðsins í sjálfu forritinu. Það verður að vinnast annars staðar.

Kostir

Góð verkfæri
Gagnlegir stillingarmöguleikar
miklir nýtingamöguleikar í kennslu
auðvelt að deila
Fría útgáfan er öflug

Gallar

Býður ekki uppá að bæta inn hljóði