
HBS – Hljóðbækur
Viltu nýta timann í strætó til að hlusta á námsbækur eða bara liggja heima í sófa og hlusta á Laxness. HBS er frábært app sem veitir notendum Hljóðbókasafnsins nýjan og betri aðgang að hljóðbókum safnsins.

Lýsing
Út er komið nýtt snjallforrit, HBS, sem gjörbyltir aðgengi lánþega að Hljóðbókasafni Íslands. Snjallforritið felur í sér nýjung sem allir lánþegar geta notfært sér en með snjallforritinu má nálgast allan bókakost Hljóðbókasafns Íslands á fljótlegan og þægilegan hátt í gegnum Android snjallsíma – hvar og hvenær sem er.
Margir lánþegar safnsins eru lesblindir nemendur og geta þeir nú nýtt sér þessa nýjung til að nýta tímann betur, hvort heldur sem er í skólanum, í strætó eða á kaffihúsi, enda er þráðlaust net víða í boði auk þess farsímanet verða sífellt betri. Aðgengi fyrir blinda og sjónskerta er einnig sérlega gott og virkar HBS snjallforritið vel með íslenskum talgervilsröddum sem eru aðgengilegar í gegnum Android síma með Ivona talgevlinum sem býður upp á tvær íslenskar raddir.
Viðmót og notkun
HBS snjallforritið er fallegt og einfalt og sérlega auðvelt í notkun. Þegar appið er opnað birtist valflipi sem sýnir nýjar bækur en hægt er að fletta til hliðar til að sjá vinsælar bækur, námsbækur og þær bækur sem notandinn hefur sett í uppáhalds eða er með í láni.
HBS býður upp á einfaldan leitarmöguleika sem og stillingu á sjálfvirka lokun sem er sérlega góð fyrir þá sem eiga það til að sofna yfir hljóðbókum. Appið „man“ hvar lestri bóka var hætt síðast og hefur lesturinn á ný þar sem frá var horfið.
Á vefsíður Hljóðbókasafnisins er myndband sem útskýrir notkun snjallforritsins í stuttu máli.
Öruggt streymi
Með snjalforritinu eru hljóðbækurnar spilaðar fyrir hlustendur í með svokölluðu streymi sem felur í sér öruggan gagnaflutning þannig að nær ógerningur er að dreifa efni Hljóðbókasafnsins á annan hátt en ætlast er til. Appið felur þannig í sér aukið öryggi þannig að hagsmunum höfundarréttarhafa er vel borgið með því fyrirkomulagi sem snjallforritið notast við.
Snjallforritið er samstarfsverkefni sem Hljóðbókasafn Íslands og umboðsaðili Samsung Mobile á Íslandi standa fyrir. Hugbúnaðarfyrirtækið Stokkur Software á veg og vanda að hönnun og forritun snjallforritsins en öll forritun bakendakerfis var í höndum Prógramm ehf.
HBS-appið er fáanlegt án endurgjalds fyrir Android á Play Store.
Kostir
Falleg hönnun
Einfalt í notkun
Virkar með íslenskum talgervli (Ivona)
Ókeypis fyrir lánþega Hljóðbókasafns Íslands
Öruggt streymi
Gallar
Krefst nettengingar