Infinite Painter

 

Infinite Painter er öldungis frábært teikni- og málunarforrit frá Sean Brakefield. Þetta smáforrit hentar skapandi fólki, bæði leiknum sem lærðum og á eftir að heilla þig uppúr skónum.

 

Lýsing

Infinite Painter er app sem er sérstaklega hannað fyrir android snjalltæki og er eitt af flaggskipum myndvinnsluappa frá framleiðandanum Sean Brakefield. Framleiðandinn býður upp á mjög flotta fría útgáfu á Googleplay og gefur svo kost á viðbótum sem kaupa má aðgang að, t.d. fjarvíddarteikningu og hönnun. Þegar hafist er handa með forritið skal velja fyrst stærð strigans (e. Canvas) sem vinna skal með. Þegar það er komið mætir manni einfalt viðmót. Vinstra megin er aðalverkfæralínan og uppi í hægra horni eru vistunar og deilimöguleikarnir. Aðalverkfæralínan sem hefur sprettiglugga fyrir hvert tól; þar bjóðast annaðhvort fleiri verkfæri eða ýmsar stillingar. Upp í horninu hægra megin má færa inn myndir eða deila þeirri mynd sem unnin er. Kaupi maður viðbæturnar fjölgar kostunum töluvert og flækjustigið eykst, enda um töluvert fullkomið myndvinnsluforrit að ræða. Skoða má kynningar– og kennslumyndskeið á Youtube.

 

Ekta málunaráhrif á stafrænu formi

Dell mús máluð í Infinite Painter.

Grunnuppsetning og viðmót Infinite Painter er ekki flókin. Aðalverkfæralínan er staðsett vinstramegin á skjánum. Niðri í horninu vinstra megin er afturköllunartakkinn (e. Back button), uppi í horninu vinstramegin koma svo auka skipanir í viðbótum og í hægra horninu eru nokkrir takkar, m.a. vistunar- og deiliskipanir, inn- og útflutningur gagna, stillingar, lagskipting o.fl. Þegar teiknað/málað er og aðalverkfæralínan er notuð skal skal velja verkfæri. Stilla má umfang þess, velja sér lit, stilla hversu þekjandi liturinn á að vera o.fl. Og þá er ekkert að vanbúnaði og hið skapandi starf getur hafist. Það er mögulegt að skipta um verkfæri á leiðinni og auðvitað stillir maður þau eftir þörfum. Svo súmmar maður að til að vera nákvæmari eða frá til að sjá heildarmyndina. Verkfærum í aðalverkfæralínunni er skipt niður í flokka, sbr. blek, flæði, pensla, sprei, kornað o.fl. Í hverjum flokki eru nokkur tól og virkar forritið þannig að hvort sem er má teikna/mála eða stroka út með þeim. Þannig má framkalla áferð á ólíkan hátt. Að myndgerð lokinni má vista hana á tækið eða upp í ský (t.d. Drive eða Dropbox). Reyndar er alltaf gott að minna á það að vista ætíð reglulega eintök þegar unnið er stafrænar myndir. Forrit eiga það til að stöðvast ófyrirséð og vinnan þá glötuð. Myndir sem gerðar eru í Infinite Painter má deila eða vinna áfram í öðrum myndvinnsluforritum, s.s. Pixl Express, Sketchbook, Photoeditor o.fl. þegar keyptar eru viðbæturnar fjölgar verkfærunum og myndrænum möguleikum umtalsvert. Viðbæturnar þónokkrar, en ekki gefst svigrúm til að fjalla nánar um þær hér. Látum duga að benda á Youtube myndskeiðin sem getið var hér að ofan.

[do action=”mynd” url=”http://www.snjallskoli.is/wp-content/uploads/2015/07/output_PAL3gG.gif” device=”s5-white-portrait” align=”center” size=”small”/]


Infinite Painter er afar öflugt smáforrit sem vert er að kynna sér og læra á, hvort sem að maður ætlar sér bara að nýta fríu útgáfuna eða fara alla leið og kaupa viðbæturnar. Viðbæturnar sem kaupa má eru vel þess virði, auknir lagskiptingarkostir, eiginleikar til að gera fjarvíddarteikningar, samhverfuteikningar (e. Symmetric Drawings) o.fl., o.fl. Viðmót Infinite Painter er þægilegt. Stutt er í afturköllunartakkann og þónokkrar afturkallanir má gera í einu, auðvelt er að deila verkunum, einnig að færa inn myndir sem vinna má í, ofan á eða áfram með. Uppsetning verkfæranna virkar einföld og eðlileg, þau virka hratt og vel og stillingar á þeim auðlærðar. Reyndar virkar teikningin sjálf afar vel, engar tafir eða bið, sem myndi draga úr gæðum upplifunarinnar. Sérstaklega í Samsung Note (snjalltækin með innbyggða S-pennanum), en forritið var unnið sérstaklega fyrir þá þrýstinæmu hátækni frá Samsung. Einn galli er á gjöf Njarðar. Forritið á það til að lokast og vonandi verður fundin lausn á því.

Infinite Painter er með fullkomnari snjallteikniforritum og því býsna öflugt sem verkfæri. Sérstakelga þegar viðbæturnar hafa verið keyptar. Eftir því sem verkfærin verða fullkomnari tekur meiri tíma að læra á þau og felst lærdómurinn ekki síst í því hvernig maður vill hagnýta þau. Þó ber að nefna hér að yngri notendur geta hæglega nýtt sér Infinite Painter líka. Einn kost hefur Infinite Painter umfram marga aðra og hann ber að nefna hér. Eitt verkfæri og/eða stilling gerir manni kleift að hræra í litunum á strigunum, þ.e. blanda þeim saman á meðan teiknað er (bæði sem olíu og vatnslit). Slíkt líkir óneitanlega eftir raunverulegri blöndun málningar og fyrir þann sem rétt svo prófar það virkar það dáleiðandi og skemmtilegt. 

Niðurstaðan getur ekki verið á annan veg: Infinite Painter er virkilega vandað og öflugt verkfæri, sem vert er að læra að nýta sér.

 

 

 

Kostir

Frábært og einfalt viðmót
Veitir góða teikni- og málaraupplifun
Frábær frí útgáfa
Miklir deili- og vistunarmöguleikar
Virkar stabílt
Forrit hlaðið teiknimöguleikum

Gallar

Vantar sérlita-valstól (e. Colour Eyedropper tool
Viðbætur kosta
Á til að stöðvast (muna að vista á leiðinni!)