Orð í tíma töluð

 

Ertu á höttunum eftir fleygum orðum til að nota í ritgerð eða tækifærisræðu. Orð í tíma töluð hefur að geyma þúsundir tilvitnana – beint í símann eða spjaldtölvuna. Hafsjór af tilvitnunum í einföldu appi sem fólk getur haft bæði gagn og gaman af.

 

Lýsing

Eftir því sem næst verður komist er Orð í tíma töluð fyrsta orðabókin á íslensku sem kemur út fyrir snjalltæki. Snjallskólinn gerir sér vonir um að fleiri íslenskar orðabækur fyrir snjallsíma muni líta dagsins ljós von bráðar enda getur það aukið notagildi orðabóka og orðasafna til muna að hafa þær aðgengilegar í snjalltækinu sæinu.  Raunar mætti segja að það sé löngu tímabært að orðabækur séu (líka) gefnar út með þessu sniði. Rúsínan í pylsuendanum er að appið fæst endurgjaldslaust og er aðgengileg fyrir öll Android tæki.

Með þessu appi fæst aðgangur að þúsundum tilvitnana, beint í símann eða spjaldtölvuna. Þú getur flett upp og leitað í um 7000 tilvitnunum sem sumar hafa hafa lifað með þjóðinni í þúsund ár meðan aðrar hafa orðið til á síðustu árum.  Appið byggir á tilvitnanaorðabók Tryggva Gíslasonar magisters, fyrrverandi skólameistara MA, en bókin kom út árið 1999 og er nú löngu uppseld. Hægt er að nálgast upplysingar um appið á vefsíðunni ord.tvr.is

ord-valmyndord-stafurGord-leit

Þetta snjallforrit er einfalt í notkun og ljómandi fallega hannað enda er það Stokkur Software sem á veg og vanda af hönnun þess og virkni. Þó mætti setja út á að að ekki er hægt að afrita texta úr appinu með góðu móti og er það eini stóri gallinn við þetta annar skemmtilega app. Eins mætti vera hægt að deila tilvitnunum á Facebook og  Google+ fyrir þá sem vilja slá um sig með fleygum orðum annarra.

Gagnlegt og einfallt snjallforrit sem með smá lagfæringum gæti fengið fimm stjörnur.

Eins og nafnið bendir til er um að ræða tilvitnanaorðabók. Appið er troðfult af tilvitnunum – fleygum orðum – sem fallið hafa í tímans rás og orðið ódauðleg. Sumar tilvitnanir – t.d. „eigi skal höggva“eða „fögur er hlíðin“ – eru nokkuð sem flestir Íslendingar þekkja vel eða kannast að minnsta kosti við. Appið nýtist ljómandi vel þeim sem vilja rifja upp og fullvissa sig um að rétt sé munað að þessi eða hinn lét tiltekin fleyg orð falla af einhverju tilefni.

En appið nýtist líka jafnvel þótt notandinn viti ekkert um höfundinn eða af hvaða tilefni orðin voru látin falla. Hin mjög svo einfalda leitarvirkni í appinu er nefnilega altæk og leitar því í tilvitnuninni sjálfri, eftir nafni höfundar og í skýringartextanum. Sé leitarorðið „Hamlet“ slegið inn fær notandinn upp leitarniðurstöður sem vísa í orð Hamlets eða hvaðeina sem tengist Hamlet. Eins er hægt að leita að „frelsi“ eða „ást“ og fengið leitarniðurstöður sem tengjast með einum eða örðum hætti þessum hugtökum. Það ættu ritgerðarsmiðir og ræðuhaldarar af öllum stærðum og gerðum að geta nýtt sér – eða allir þeir sem eru að leita að góðum pick-up línum, því þessi orðabók fylgir þér hvert sem er.

Orð í tíma töluð er gagnlegt og einfalt snjallforrit sem vonandi markar tímamót í útgáfu orðabóka á Íslandi (er HÍ, Árnastofnun eða aðrir þeir sem luma á dýrmætum fjársjóðum tungumálsins að hlusta?). Með smávægilegum lagfæringum á virkni gæti appið fengið fimm stjörnur. Þangað til fær Orð í tíma töluð þrjár og hálfa stjörnu.

Kostir

Hafsjór af tilvitnunum
Einfalt í notkun
Fallega hannað
Ókeypis
Altæk leit

Gallar

Ekki hægt að afrita/líma tilvitnanir.
Engir möguleikar á að deila á félagsmiðla.